139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Ég kannast ekki við að hafa lofað mönnum því í aðdraganda kosninganna 2009 að það væru auðveldir tímar fram undan. Við kusum þá í ákveðnu skjóli af ýmsum bráðabirgðaráðstöfunum sem gerðar höfðu verið á fyrstu mánuðum ársins. Við kusum við þær aðstæður að það hafði verið ákveðið að leyfa sveiflujöfnunargildi fjárlaganna að mestu leyti að virka að fullu án skerðinga á því ári, sem reyndar var að hluta til dregið til baka með aðgerðum strax á miðju árinu sem reyndust mjög skynsamlegar, en við vissum öll að meginglíman var fram undan. Það vissu allir að það voru erfiðir tímar fram undan og erfið glíma við ríkisfjármálin.

Í öðru lagi í sambandi við heilbrigðisþjónustuna. Ég held að það sé mikilvægt að leggja á það áherslu hér að það stendur ekki til að afleggja sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Hér er um að ræða þá spurningu hvort við getum endurskipulagt hana og breytt áherslum í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar í þá átt sem lengi hefur verið talað fyrir af fagfólki á þessu sviði, að efla heilsugæsluþáttinn og samþætta hann og tengda starfsemi og endurskipuleggja síðan sérhæfðari og dýrari þættina.

Í þriðja lagi fagna ég því sem hv. þingmaður segir um viðfangsefnið sjálft, að við eigum ekki annað val en takast á við hallann og ná honum niður. Varðandi ný útgjöld eru þau vissulega til staðar en ég hef ekki í mínum huga komið saman tölum af þessari stærðargráðu. Það sem maður man og veit eru t.d. stórkostlega auknar fjárveitingar til sérstaks saksóknara, til ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra, til Fjármálaeftirlitsins sem reyndar byggir á eigin tekjustofnum og kosningar og stjórnlagaþing og annað því um líkt kostar vissulega peninga. Það er horfst í augu við ýmis slík ný en að talið er óumflýjanleg útgjöld og þar hygg ég að stærstu tölurnar séu á ferðinni.

Varðandi veikleika í frumvarpinu sjálfu mundi ég frekar orða það svo að það séu veikleikar í stöðu þjóðarbúsins og það eru óvissar horfur á ýmsum sviðum. Hv. þingmaður nefndi eitt, þau ótíðindi (Forseti hringir.) ef það á að verða að veiðiheimildir dragist saman í mikilvægum tegundum uppsjávarfiska en þær fréttir komu í gær eða fyrradag.