139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin svo langt sem þau ná en ég spurði hæstv. ráðherra áðan: Þegar það liggur fyrir að Hafrannsóknastofnun er í þeirri stöðu að þurfa að leggja öðru skipi sínu og þegar það liggur fyrir að Verkefnasjóður sjávarútvegsins er til staðar, hefur hæstv. ráðherra einhver áform um hvernig verja eigi þeim fjármunum? Á að verja þeim fjármunum til rannsókna utan Hafrannsóknastofnunar í vaxandi mæli? Á að leggja aukið fé til Hafrannsóknastofnunar til að hún gæti sinnt hlutverki sínu betur, gert út bæði skipin o.s.frv.? Það er auðvitað álitamál sem þarf að svara og ég ætla ekki að leggja mat á það hér og nú þó að ég kunni að hafa á því skoðanir. En spurningin verður bara þessi: Er hæstv. ráðherra að undirbúa það með einhverjum hætti að leggja fram hugmyndir á grundvelli t.d. verkefnasjóðsins sem tryggja úthald beggja skipanna eða ber að skoða það sem svo að það sé afgreitt mál, að búið sé að taka um það ákvörðun að halda bara úti Árna Friðrikssyni en ekki Bjarna Sæmundssyni?

Í annan stað hafði hæstv. ráðherra ekki tök á því að svara spurningum mínum um Lífeyrissjóð bænda. Ég vakti athygli á því að það er verið að leggja niður að fullu — og það er mjög stefnumarkandi ákvörðun, hæstv. ráðherra — framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Nú vitum við að Lífeyrissjóður bænda er ekkert sérstaklega öflugur, hann getur ekki staðið undir miklum lífeyri til bænda þó að svo sannarlega veitti ekki af. Þess vegna spurði ég: Hvaða áhrif hefur það á tryggingalega stöðu hans? Hvaða áhrif hefur það á getu sjóðsins til að standa undir lífeyrisskuldbindingum? Hefur hæstv. ráðherra ekki látið reikna það út? Ég trúi því ekki að svona ákvörðun sé tekin öðruvísi en að menn geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það hefur, hvaða áhrif það hefur á möguleika sjóðsins til að standa undir lífeyrissjóðsgreiðslum til bænda í framtíðinni.

Í öðru lagi vakti ég athygli á því varðandi Framleiðnisjóð að það hefði mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir landbúnaðarháskólann á sama tíma og við tölum um að mikilvægt sé að auka rannsóknir. Landbúnaðarháskólinn er sennilega hlutfallslega öflugasti rannsóknarháskóli í landinu (Forseti hringir.) og þess vegna hefur þetta mjög mikil áhrif á stöðu, verkefni og möguleika skólans.