139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:31]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég segi það fullum fetum að miðað við hvernig umræðan liggur hjá þeim þingmönnum sem rætt hafa þetta mál í dag og eins þær áherslur sem komu fram í stefnuræðunni í gær virðist í fljótu bragði vera tvennt til í stöðunni. Annars vegar að keyra þetta frumvarp áfram lítt sem ekkert breytt eða að gefa eftir og gera mjög miklar tilslakanir á einstökum atriðum. Ég óttast að skoðanir þingmanna í þeirri vinnu sem fram undan er séu tiltölulega skiptar og þetta verði mjög erfitt verk. Því óttast ég þá niðurstöðu mjög að menn reyni frekar að halda þessu til streitu í þeirri mynd sem það birtist hér, því miður.

Ég vil að sama skapi spyrja og kalla eftir áherslum þingmannsins í þeim efnum: Hvernig metur hann möguleika okkar til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins á grunni þeirra tillagna sem eru lagðar inn í því frumvarpi sem hér liggur fyrir á sviði almannatrygginga?