139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skuldastöðu heimilanna, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að málið skuli hafa komist á dagskrá eftir að hv. þm. Ólöf Nordal kallaði eftir því í vikunni. Ég vil líka þakka forsætisráðherra fyrir skýrsluna sem hér var flutt. Ég sakna þess reyndar að hún hafi ekki komið meira inn á skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja sem er nýlega komin út. Þar er að finna ágætar upplýsingar um það að hve miklu marki aðgerðirnar sem nú hefur verið gripið til hafa komið heimilunum í landinu til hjálpar. Það er þannig með þessa ágætu ríkisstjórn að þegar hún hefur kynnt til sögunnar lausnir sínar á vandanum fylgir að hún telji sig hafa náð utan um vandann. Þannig var það t.d. 18. mars þegar ráðherrar boðuðu til blaðamannafundar. Þá kom afar skýrt fram að viðkomandi ráðherrar, eins og lesa má um í Morgunblaðinu, telji sig hafa náð utan um skuldavandann. Þessu andmæltum við. Við andmæltum því og sögðum: Það er ekki nóg að gert. Það var hins vegar haft ágætissamráð við stjórnarandstöðuna. Í tilefni af allri umræðunni um samráðið og skortinn á vilja okkar til að hafa samráð er það þannig að við höfum í hverju einasta máli sem lýtur að því að koma heimilunum til aðstoðar átt gott samráð við þingmenn úr öðrum flokkum, í hverju einasta máli. Ég vísa til þess sem gerðist í félagsmálanefnd í fyrra þar sem endurskrifa þurfti öll frumvörpin sem komu úr ráðuneytinu. Það þurfti hreinlega að leggja þau til hliðar eða rífa og setja í ruslatunnuna og skrifa upp á nýtt. Þar áttu þingmenn okkar í viðkomandi nefndum sína hlutdeild.

Umræðan hélt áfram eftir blaðamannafundinn í mars. Við ræddum skuldavanda heimilanna í júní. Hvað sagði þá hæstv. forsætisráðherra? Skuldavandinn er ekki jafnmikill og sagt er. Það var sagt 4. júní. Skuldavandinn er ekki jafn mikill og sagt er. Þegar við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað, allt frá því að ríkisstjórnin tók við, bent á að aðgerðir hennar dygðu ekki til að ná utan um vandann hefur hún skellt skollaeyrum við þeim málflutningi — allan tímann.

Vandi heimilanna í dag er ekki sá að við í Sjálfstæðisflokknum mætum ekki með þremur ráðherrum upp í Stjórnarráð. Vandinn er stefnan og grundvöllurinn sem þessi ríkisstjórn hefur unnið að til þess að leysa vandamálið. Það er hún sem hefur verið í ákveðinni veruleikafirringu. Það er ríkisstjórnin sem hefur ekki náð utan um vandann og komið með lausnirnar sem allir eru að kalla eftir.

Vandi heimilanna er ekki bundinn við skuldirnar sem hvíla á heimilunum og húsnæði fjölskyldna. Hann er líka bundinn við það að hér er ríkisstjórn sem hefur ómögulega efnahagsstefnu sem er ekki líkleg til að skapa hagvöxt þannig að til verði ný störf svo fólk geti staðið í skilum og greitt sína skatta þannig að ríkið geti staðið undir velferðarkerfinu sem byggt hefur verið upp. Reyndar er það þannig að í nýju frumvarpi til fjárlaga sjáum við að þó að okkur takist að auka tekjur ríkissjóðs eins og áætlað er að verði á næstu árum, mun ekkert svigrúm verða til að auka útgjöld til velferðarmála næstu fjögur ár. Það er það sem segir í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég minntist hér á skýrslu eftirlitsnefndar um aðgerðir. Hún liggur nú fyrir. Þar kemur fram að einungis hafa 128 einstaklingar fengið sértæka skuldaaðlögun. Það liggur jafnframt fyrir, ég sat fyrirlestur hjá umboðsmanni skuldara um síðustu helgi, að einungis hafa um 500 aðilar komist í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Þá er ég ekki að tala um endanlega afgreiðslu, heldur mál sem eru í vinnslu.

Það stendur upp á hæstv. forsætisráðherra að svara því nú: Hvernig líst þér á árangur þessara umfangsmiklu aðgerða sem eru sagðar hafa dugað og ná utan um vandann? Hvers konar hörmungardómur eru þessar tölur yfir úrræðum ríkisstjórnarinnar fram til þessa? Þetta er algjör falleinkunn. En vandinn er sá að Sjálfstæðisflokkurinn mætti ekki á fund í Stjórnarráðið í morgun. Það er stóra vandamál heimilanna, ekki satt?

Þetta sjónarspil sem boðið er upp á er algjörlega makalaust.

Það sem þarf að gerast er í fyrsta lagi að menn fari loksins að taka skuldavanda heimilanna alvarlega. Vilji menn efna til samráðs þarf það að taka til fleiri þátta en skulda heimilanna. Þá þarf að hafa samráð hvernig unnið verður að atvinnuuppbyggingu í landinu, hvernig við komum af stað nýrri trúverðugri efnahagsstefnu fyrir landið. Það gerir okkur kleift að loka fjárlagagatinu og skapa ný störf þannig að fólk komist aftur út á vinnumarkaðinn, geti unnið fyrir sér og sínum og endurheimt lífskjörin sem hafa glatast í hruninu. Það skortir algjörlega.

Við þurfum að fá inn nýjar fjárfestingar. Við þurfum að lækka vexti. Við þurfum að losna við gjaldeyrishöftin. Við þurfum nýja skattstefnu sem byggir ekki á því að seilst sé sífellt dýpra í vasa heimilanna og frekari byrðar lagðar á fyrirtækin. Við þurfum að koma framkvæmdum af stað. Hvar eru efndirnar á loforðunum um framkvæmdir í samstarfi við lífeyrissjóðina? Hvar eru þær efndir? Hvar eru efndir stóru loforðanna um að menn mundu nýta kraftinn sem væri í lífeyrissjóðakerfinu til þess að hrinda mannaflsfrekum framkvæmdum í gang? Eru það bara þingmenn Vinstri grænna sem standa í vegi fyrir því? (ÁI: Líttu á Landspítalann.) Eða er það ríkisstjórnin í heild sinni? (Gripið fram í.) Þau eru uppi í hillum í metravís verkefnin sem eru tilbúin til framkvæmda. Það eru svona mál sem þarf að koma hér á dagskrá.

Varðandi bankana og fjármálafyrirtækin þá hefur ríkisstjórnin brugðist algjörlega í að veita þeim aðhald við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja og aðgerðunum sem þau hafa haft úr að spila til að koma til móts við vanda heimilanna.

Ég fagna því reyndar sem hæstv. forsætisráðherra segir að þeim verði ekki gefinn mikið meiri tími. Það er kominn tími til að setja fjármálafyrirtækjunum einhver mörk. Segja hingað og ekki lengra. Innan þess tímaramma sem við setjum verður að vera lokið við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækjanna í landinu og aðgerðir sem beinast að heimilunum. (Forseti hringir.) Það er algjört grundvallarskilyrði að fjármálafyrirtækjunum verði sett slík skýr mörk.