139. löggjafarþing — 7. fundur,  7. okt. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

25. mál
[16:30]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði sjálf hugsað mér að þessi ráðgjafarstofa væri hluti af stoðkerfi atvinnulífsins meðan aftur á móti Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna fellur frekar undir velferðarhlutann, félags- og tryggingamálaráðuneytið. Hins vegar tel ég að þetta gæti að einhverju leyti létt á umboðsmanni skuldara vegna þess að í þeim tölum sem ég aflaði mér frá Ráðgjafarstofu heimilanna, sem rann síðan inn í umboðsmann skuldara, var að ákveðið hlutfall af þeim sem leituðu þangað væru einyrkjar með lítinn atvinnurekstur. Í minni fyrirtækjum er fjárhagur eigandans svo nátengdur rekstrinum að oft er vandinn ekki endilega sá að fólk hafi farið óvarlega í sínum eigin fjármálum heldur hafi eitthvað komið upp á í rekstrinum.

Ég sé að sjálfsögðu fyrir mér að þarna yrði að einhverju leyti samstarf, þó að þetta eigi að vera hluti af stoðkerfi atvinnulífsins, vegna þess að, eins og verður kannski með umboðsmann skuldara, við munum að sjálfsögðu ekki sjá hundruð manna fara þar í gegn á hverju ári þegar við erum búin að koma okkur í gegnum þetta. Hluti af því sem ég sá fyrir mér og ástæðan fyrir því að ég nefndi Nýsköpunarmiðstöðina sérstaklega var að fólk kæmi inn þegar það er að byrja rekstur, þegar það hefur áhuga á því að stofna fyrirtæki. Það er ofboðslega mikilvægt að þar séu líka upplýsingar um þessi viðvörunarmerki, yfirleitt koma sömu viðvörunarmerkin upp í rekstri og fólk þarf að þekkja þau og vita hvert á að leita og hvernig á að takast á við vandamálin þegar þau koma upp tveimur, þremur eða fjórum árum seinna.

Ég hafði svo sem líka velt fyrir mér fjármögnuninni og maður getur svo sem alveg séð fyrir sér að að hluta til væri þetta fjármagnað af bankakerfinu líkt og umboðsmaður skuldara er í dag. Þetta væri raunar líka stuðningur við bankana, (Forseti hringir.) bæði í kreppu og ekki.