139. löggjafarþing — 8. fundur,  12. okt. 2010.

stefnumótandi byggðaáætlun 2010--2013.

42. mál
[16:51]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf dáðst að hv. þingmanni, hvernig hann getur talað hér, stundum eins og hríðskotabyssa. Það er ákveðinn hæfileiki sem ég hef ekki en ég ætla að reyna að koma sem mestu til skila á þeim stutta tíma sem ég hef.

Hann spurði beint um Byggðastofnun og ég ætla að svara því. Hann spurði hvaða örlög hún hlyti samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þessi niðurskurður mun ekki hafa áhrif á aðrar deildir en lánadeildina og lánastarfsemina. Ríkisframlagið til Byggðastofnunar er lækkað sem nemur hluta af kostnaði vegna reksturs lánastarfseminnar en í 7. gr. í reglugerð nr. 347/2000 segir að lánastarfsemin skuli greiða þann kostnað í rekstri stofnunarinnar sem til hennar megi rekja. Hins vegar hefur komið ríkisframlag, og mun koma áfram, í gegnum lið Byggðastofnunar til þessarar lánastarfsemi.

Ég nefndi líka að við höfum auðvitað verið með lánastarfsemi Byggðastofnunar til sérstakrar athugunar. Bara á þessu ári fóru inn í lánastarfsemina 3,6 milljarðar af ríkisfé til að styrkja hana og efla. Við þurfum enn á ný að taka lánastarfsemina til skoðunar og það munum við gera. Ég vona að svarið nægi hv. þingmanni. Þetta mun ekki hafa áhrif á neina aðra starfsemi lánastarfseminnar sem hefur verið til sérstakrar skoðunar og meðal annars fengið 3,6 milljarða til sín. Þeirri sögu er án efa ekki lokið.