139. löggjafarþing — 9. fundur,  13. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:33]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir þessum lið, um störf þingsins, vegna þess að ég var orðin töluvert hugsi yfir því hvernig umræður eru að þróast hér inni. Hér erum við ýmist að kýta þvert á flokka, á forsendum flokkanna sem þingmennirnir eru í, eða þá að menn eru farnir að stilla upp höfuðborg gegn landsbyggð, eins og það séu andstæður. Við eigum að vera að tala um lausnir fyrir þjóðarbúið allt. Það eru ekki síður vandamál í Reykjavík en úti á landi. Það eru vandamál um allt land sem við þurfum að takast á við.

Þau eru bæði á sviði skuldavanda en þau eru líka á sviði atvinnumála. Þess vegna höfum við verið að leggja í mikla vinnu, þessi ríkisstjórn, til að reyna að koma hreyfingu á atvinnulífið í landinu. Það gerum við í opinbera geiranum en þó ekki síður í því að reyna að koma einkageiranum á einhverja hreyfingu. Og ég vildi koma þeirri staðreynd að í þessari umræðu — vegna þess að ákveðnir þingmenn telja að það sé hagur í því fyrir þjóðarbúið að þeir standi hér og segi sýknt og heilagt að það sé ekkert að gerast í atvinnumálunum, og halda að það skili okkur eitthvað áfram — að í dag var tilkynnt formlega um samkomulag, og ég skrifaði undir það, sem er liður í því að koma af stað stærsta fjárfestingarverkefni sem komið hefur inn í landið frá hruni, eða upp á samtals 86 milljarða kr. Þetta er stækkun í Straumsvík, á framleiðslunni þar, og í tengslum við það verkefni munum við fara af stað með Búðarháls.

Virðulegi forseti. Ég vil koma þessu hér að vegna þess að ég tel að ef við ætlum að snúa bökum saman fyrir þjóðina verðum við að tala hvert við annað, um hvert annað, verk hvert annars og tillögur og hugmyndir hvert annars, af sanngirni en ekki standa hér alltaf í ræðustól og fara með staðlausa stafi eða ásaka hvert annað um verkleysi eða litla getu (Forseti hringir.) eða vilja til verka. Við þurfum að sýna hvert öðru sanngirni og eingöngu þannig komumst við áfram. Tölum um það sem er raunverulega að gerast.