139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér er ljúft og skylt að ræða atvinnumál á Suðurnesjum, enda má segja að fjármálaráðuneytinu sé ekkert mannlegt óviðkomandi. Sum þessara mála sem hv. þingmaður nefndi falla vissulega beint undir okkar verksvið.

Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni hvað atvinnuástandið er slæmt á Suðurnesjum. Það er yfir 11%, sem er fjórum prósentustigum og rúmlega það yfir landsmeðaltali þannig að þetta er tvímælalaust veikasta svæði landsins í atvinnulegu tilliti og á sama tíma og atvinnuleysi hefur lækkað og við höfum nú í september séð lægstu tölu í atvinnuleysi frá því á öndverðu ári 2009 eða rétt liðlega 7% þá er þetta að sjálfsögðu allt of mikið.

Suðurnesin hafa reyndar verið veikt svæði á köflum í gegnum tíðina og þar hafa tilteknir atburðir orðið til þess að atvinnuástandið er mjög erfitt, þ.e. veikar undirstöður í atvinnulífi og umtalsverð fólksfjölgun á sama tíma án þess að stoðir atvinnulífsins hafi styrkst með sama hætti. Almennt er það mikið áhyggjuefni að atvinnuleysi skuli ekki láta hraðar undan síga á sama tíma og vextir og verðbólga hafa lækkað umtalsvert, gengi krónunnar styrkst nokkuð og stöðugleiki skapast í hagkerfinu, þannig að öll skilyrði eru orðin til þess að fjárfestingar og umsvif fari vaxandi. En það lætur á sér standa og án efa er ein stærsta skýringin sú að allt of mikill skuldabaggi hvílir á atvinnulífinu og of hægt hefur gengið að vinna úr skuldum fyrirtækjanna þannig að efnahagsreikningur þeirra komist í ásættanlegt lag og þau treysti sér til að fara af stað í fjárfestingar og framkvæmdir á nýjan leik.

Varðandi fríhafnarmálin sem hér eru nefnd þá verður stigið þar varlega til jarðar og að sjálfsögðu erum við ekki svo skyni skroppin í fjármálaráðuneytinu að við áttum okkur ekki á því að ef þar væri farið of hart fram hefði það áhrif á afkomu og rekstur. Fjármálaráðuneytið, sem jafnframt fer með hlutabréfið í Isavia, hefur engan áhuga á því að kippa stoðunum undan þeim rekstri, að sjálfsögðu ekki. Hitt er allt annað mál að það er ekki heilagt að það sé 100% afsláttur á vörugjöldum í Fríhöfn og þegar verð á áfengi og tóbaki hefur verið hækkað aftur innan lands hefði átt að myndast þar meiri munur en áður var. Fríhöfnin keppir annars vegar við sölu innan lands og hins vegar við verð í fríhöfnum annars staðar. Við í fjármálaráðuneytinu áttum okkur alveg á þessu, m.a. sá sem hér talar sem er gamall samgönguráðherra.

Það er ánægjulegt að horfur eru mjög góðar í flugrekstri og ferðaþjónustu á næsta ári. Það stefnir í metframboð á sætum til Íslands. Íslensku flugfélögin hafa bæði kynnt verulega aukin umsvif og aukið sætaframboð á nýja áfangastaði. Þannig munu Flugleiðir eða Icelandair reka tvær vélar í viðbót á næsta ári og ráða um 200 manns þannig að með afleiddum áhrifum af þessari aukningu eru hagsmunir Suðurnesja sem miðstöð ferðaþjónustu í þeim skilningi að 95% allra erlendra ferðamanna koma til og fara frá landinu um Suðurnes af því auðvitað miklir, auk þess sem flugreksturinn syðra er stór atvinnuveitandi. Þar er þó a.m.k. eitthvað jákvætt og teikn til jákvæðra hluta.

Varðandi gagnaverin hefur ráðuneytið þegar gefið út hvað við erum tilbúin til að reyna að gera með gagnaversfyrirtækjunum eða samtökum þeirra. Við erum í góðu samstarfi við þau um að útfæra þær leiðir og það verður reynt að finna leiðir til að endurgreiða virðisaukaskatt af þeim búnaði sem fluttur er til landsins þótt viðkomandi aðili skrái ekki starfsemi og er það umtalsvert frávik frá almennum skattareglum. Einnig erum við að endurskoða uppgjör á virðisaukaskatti vegna sölu á rafrænni þjónustu. Ég geri ráð fyrir því að frumvarp komi fljótlega inn til að klára þann þátt málsins. Þar eiga að vísu fleiri hagsmuna að gæta en bara gagnaver. Það er vandamál sem skatturinn hefur verið að takast á við, hvernig eigi að skilgreina rafræna þjónustu og hvernig eigi að meðhöndla hana í skattalegu tilliti. Það snýr að tölvuleikjafyrirtækjum, hugbúnaðarfyrirtækjum og gagnaverum og meiningin er að reyna að botna það mál og hin með frumvarpi nú á næstu dögum.

Varðandi Helguvík verða menn bara að horfast í augu við það að stjórnvöld geta ekki þvingað fram niðurstöðu í samningum orkufyrirtækja við væntanlegan kaupanda um orkuverð. Ef veikleikar eru í sjálfum orkuöflunarforsendunum þá er það ekki eitthvað sem stjórnvöld hafa í sínum höndum. Það er bara ekki þannig. Það þýðir ekki að vera í þessu gamla karpi eða þessum umkenningaleik. Ég held að það sé langmikilvægast fyrir okkur að hætta því öllu saman og að stjórnvöld, ríkisvald, sveitarfélög og heimamenn fari að vinna saman og skoða hvað þau geta sameiginlega gert (Forseti hringir.) til að takast á við þetta erfiða ástand. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er algerlega rétt að Suðurnesin eiga að vera okkar mesta áhyggjuefni í þeim efnum.