139. löggjafarþing — 10. fundur,  14. okt. 2010.

atvinnumál á Suðurnesjum.

[11:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að sé langgagnlegast að ræða þetta af yfirvegun og horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. Ég tel að ræða hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar áðan hafi verið slæmt dæmi um málflutning sem skilar okkur engu, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Hv. þingmaður taldi upp alls konar áform og komst alltaf að þeirri niðurstöðu að það væri ríkisstjórninni að kenna að þetta væri ekki allt orðið að veruleika. (REÁ: Þingmaðurinn …) Við vitum betur. Þetta stenst ekki skoðun. Það hafa reynst veikleikar undir sumum áformum sem menn verða að horfast í augu við. Ef ekki er hægt að tryggja orkuöflunarþáttinn, ef menn ná ekki saman um orkuverð og aðra slíka hluti, ef fjármögnun er ekki til staðar hjá öðrum hvorum aðilanum, þá er það veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Það hefur ekkert upp á sig að vera í umkenningaleik um það, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það skilar okkur ekki hænufeti.

Auðvitað er það þannig að þó að Suðurnesin séu að hluta til afmarkaður vinnumarkaður þá eru þau líka hluti af vinnumarkaði suðvesturhornsins. Uppbygging, hvort sem hún er í ferðaþjónustu, framkvæmdir í Straumsvík eða ný störf sem skapast í flugrekstri og ferðaþjónustu, er að sjálfsögðu jákvæðar fréttir þó að við vitum það ekki fyrir fram að hve miklu leyti Suðurnesjamenn eða íbúar þar fái þessi störf. Ég tel að við eigum líka að skoða hvernig við getum látið áform rætast um að nýta þá aðstöðu og mannvirki sem losnuðu þegar herinn fór. Menn notuðu tímann sorglega illa frá því upp úr aldamótum og fram til 2006. Það vissu það allir sem vildu vita að herinn var að fara en það mátti ekki tala um það. (Gripið fram í.) Þarna eru tækifæri og möguleikar sem enginn vafi er á að hægt er að nýta vel. Það verður að glíma samþætt við þennan vanda. Vandi Suðurnesja er því miður ekki bara slæmt atvinnuástand. Þarna eru þrjú í hópi fjárhagslega verst settu sveitarfélaga landsins. Þarna þarf ríkið að reiða fram mikla fjármuni (Forseti hringir.) á næstunni til að reisa við fjármálin. Það þarf að taka bæði á félagslegum og menntunarlegum þáttum þar sem glíma þarf við veikleika. Samþætt átak stjórnvalda og heimamanna (Forseti hringir.) sem skoða stöðu veikleika og styrkleika svæðisins í heild er að mínu mati vænlegasta aðferðin á svæðinu og ekki skal standa á mér að leggja mitt af mörkum í þeim efnum.