139. löggjafarþing — 15. fundur,  19. okt. 2010.

fjárhagsstaða sveitarfélaganna.

[16:24]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög þarft að taka þessi mál um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna til umræðu hér í aðdraganda fjárlagagerðar. Það er ekki þannig sem við blasir í dag hjá okkur að það sé eingöngu hjá ríkinu sem fjárhagurinn er þröngur og erfið mál að takast á við, heldur er sá veruleiki nákvæmlega sá sami hjá sveitarfélögunum.

Ég verð að segja það, háttvirtu þingmenn, að það hefur í raun og veru vakið undrun mína og aðdáun og þeirra sem fylgst hafa með hversu vel sveitarfélögunum almennt í kringum landið hefur tekist að halda uppi allri grunnþjónustu og sinni starfsemi við þær þröngu aðstæður sem menn hafa þurft að búa við eftir efnahagshrunið haustið 2008. En það eru líka skýr skilaboðin sem hafa komið, m.a. frá fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í síðustu viku, að það sé komið að þanþolum. Það er búið að skera inn að beini og sveitarfélögin horfa fram á það núna að fjárhagsáætlanagerð fyrir komandi ár verður sú erfiðasta sem menn hafa horfst í augu við svo lengi sem menn muna.

Hér var vikið að fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og þau hafa verið með ýmsum hætti í gegnum tíðina. Menn hafa náð saman núna um að setja niður ákveðið regluverk í samráði, fjármálareglur, og eru að landa þeirri vinnu. Í þeim atriðum skiptir ekki síst máli, eins og hér hefur verið bent á, að það samstarf virki í báðar áttir. Ekki er eingöngu hægt að horfa á skyldur og ábyrgð sveitarfélaganna heldur verður þá auðvitað líka svo að vera hvað snýr að ríkinu í þeim efnum.

Tekjustofnanefnd er að ljúka störfum sínum á næstu dögum og ljóst er að þar verður ekki stórt svigrúm til mikilla áfanga í fjárhagsstöðu fyrir sveitarfélögin. Það eru þrjú lykilmál sem skipta máli og verður að horfa til í uppgjöri núna fyrir næstu fjárhagsáætlun. Það er að tryggja húsaleigubótakerfið þar sem er einn okkar viðkvæmasti hópur. Það verður að tryggja áfram aukaframlag í jöfnunarsjóðinn og horfa sérstaklega til þeirra sveitarfélaga sem eru í þrengingum. Og varðandi tryggingagjaldið sem hæstv. ráðherra minntist á áðan, það (Forseti hringir.) er í raun og veru aukaskattur á sveitarfélögin ef fella á niður þá niðurgreiðslu sem hefur komið á það aukaálag til sveitarfélaganna.