139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag bárust fréttir af því í fjölmiðlum að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árni Páll Árnason væri með uppi áform um að leggja fram á Alþingi frumvarp sem gerði það að verkum að fólk sem hefur ofgreitt fjármálafyrirtækjum fjármuni vegna myntkörfulána fái ekki peninga sína endurgreidda þegar lánin verða endurreiknuð, heldur sé hæstv. ráðherra með áform um að inneign þeirra sem ofgreitt hafa verði ráðstafað til lækkunar á höfuðstól þeirra lána. Með öðrum orðum eru fréttirnar þess efnis að fjármálafyrirtækjunum og hæstv. ráðherra verði falið að ráðstafa eignum fólks sem fjármálafyrirtækin hafa innheimt af þeim án lagaheimildar.

Ég vona að þessi áform séu ekki rétt og sönn, og fréttaflutningurinn rangur, vegna þess að ég hefði talið eðlilegra að þeir lántakendur sem ofgreiddu myntkörfulánin fengju sjálfir að ráða með hvaða hætti þeir ráðstöfuðu því sem ofgreitt var. Ég bendi á að þeir sem hafa ofgreitt kunna að hafa hagsmuni af því að nota þá fjármuni frekar til uppgreiðslu á öðrum lánum en myntkörfulánunum, eins og kortaskuldum eða yfirdráttarlánum sem bera miklu hærri vexti en myntkörfulán. (Gripið fram í: Rétt.) Mig langar til að biðja hv. þingmenn stjórnarliðsins um að fá staðfestingu á því hvort þessi áform eru uppi af hálfu hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) hvort slíkar tillögur hafi verið lagðar fram og samþykktar í þingflokkum stjórnarflokkanna og yfir höfuð (Forseti hringir.) hvort hv. þingmenn stjórnarflokkanna ætli að láta hæstv. ráðherra komast upp með það (Forseti hringir.) að ganga svona fram gagnvart fólki sem hefur verið ofrukkað (Forseti hringir.) á grundvelli ólögmætra lána.