139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

raforkulög.

60. mál
[15:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð núna um þetta frumvarp, enda erum við í 1. umræðu. Því verður væntanlega vísað til iðnaðarnefndar þar sem ég ásamt fleiri þingmönnum mun taka það til umfjöllunar.

Ég vil þó segja eitt í upphafi. Ég fagna þessu frumvarpi. Það er margt til bóta sem verið er að leggja þar til. Mér líst t.d. ágætlega á að flutningsfyrirtæki verði í opinberri eigu. Ég held að það geti verið mjög gott. Ég held það sé til bóta fyrir alla umsýslu með raforkuflutning. Ég gæti trúað því að það mundi jafnvel auðvelda okkur að nota þetta system til byggðastyrkingar og þess háttar. Það eru rýmri heimildir til beinna tenginga. Ég held að það sé mjög jákvætt fyrir atvinnulífið og atvinnuuppbygginguna í landinu. Ég held að breyting á skilgreiningu varðandi stórnotendur geti líka virkað sem hvati út í atvinnulífið og slíkt. Það er ýmislegt svona sem er mjög til bóta.

Ég velti því samt sem áður upp hvort við þurfum ekki að skoða ákveðna hluti í þessu, þ.e. líta yfir hvernig við getum auðveldað framleiðslu og dreifingu, hvort það sé nógu mikill hvati eða breyting í frumvarpinu sem einfaldi þá hluti. Við þurfum að leggjast yfir það hvort við getum gert eitthvað í þessu frumvarpi til að tryggja afhendingaröryggið eða auka það eða eitthvað slíkt. Það getur verið að það eigi ekki heima hér akkúrat núna, en ég vil endilega að það verði skoðað.

Síðan held ég að það verði að athuga hvort hægt sé að gera enn þá betur við þær mikilvægu atvinnugreinar sem við eigum hér á Íslandi og treysta mikið á raforkuna og raforkuverðið og þá er ég m.a. að vitna til garðyrkjunnar. Fyrst við erum að endurskoða þessi raforkulög þurfum við að kíkja á alla þessa þætti, því það er mjög mikilvægt fyrir okkur að garðyrkjan þrífist vel hér á Íslandi því bæði erum við vitanlega að fá mjög holla vöru og spara gjaldeyri. (Gripið fram í: Græna stóriðjan.) Og græna stóriðjan, græna hagkerfið, sem við ætlum m.a. að fjalla hér um. Þannig að ég held að við þurfum að horfa á alla þessa þætti. Allt er vænt sem vel er grænt, eins og hv. þingmaður veit.

Vegna þess sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom hér inn á varðandi köldu svæðin, vil ég að lokum nefna að það er gríðarlega mikilvægt að við séum meðvituð um að stór hópur landsmanna býr við það að borga 40 til 50 þús. kr. í rafmagn á mánuði. Við skulum hugsa okkur hvernig tónninn væri ef höfuðborgarbúar þyrftu að borga það í staðinn fyrir þrjú til fimmþúsundkall eða hvað menn borga hér fyrir rafmagn. Það er gríðarleg misskipting, jafnvel á svæðum þar sem tekjur eru mjög lágar, laun eru lág og því lítið til skiptanna þegar upp er staðið. Ég held að við verðum að reyna að tryggja það, auðvitað getum við ekki tryggt það í einu vetfangi, en við verðum að reyna að minnka þennan mun á lífskjörum. Ef við getum það í þeim umræðum sem fram munu fara og því verkefni sem við erum með hér, þá þurfum við að skoða það.

Ég fagna frumvarpinu og mun að sjálfsögðu ræða þessar athugasemdir í iðnaðarnefnd þegar þar að kemur.