139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

mannvirki.

78. mál
[17:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þessa afmarkaða efnis um lögbindingu þess að slökkvilið landsins fari með lögbundið hlutverk varðandi björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þetta hefði verið verkefni slökkviliða í landinu en í því felst ákveðinn misskilningur. Í umfjöllun um 2. gr. er sagt, eins og hæstv. ráðherra vitnaði til, að ekki sé hér þó átt við starfsemi björgunarsveita sem felst í rústabjörgun. Það hefur verið fyrst og fremst, og er, ábyrgð björgunarsveita að bjarga úr rústum. Það geta komið upp þær erfiðu aðstæður að framkvæma þurfi einhvers konar rústabjörgun úr húsum sem eru í eldsvoða og að slökkviliðsmenn séu í raun þeir einu sem geta farið inn í þau verkefni, en það krefst ekki kannski þess sérhæfða búnaðar sem hér um ræðir.

Ég kem hér upp bara til þess að ítreka það við hæstv. ráðherra hvort hún sé ekki sammála mér að í meðferð málsins allri verði gætt alveg sérstaklega að orðalagi í þessu þannig að á engan hátt verði hallað á þá öflugu starfsemi sem björgunarsveitir landsins reka. Þær eru með alþjóðlega rústabjörgunarsveit á sínum snærum sem er ein af fáum sveitum í heiminum sem hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna — var, held ég, ein níunda sveitin í heiminum til að hljóta opinbera úttekt og viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna. Sú sveit starfar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og enginn er betur til þess fallinn að stunda það sem almennt er talað um sem rústabjörgun, þ.e. björgun á fastklemmdu fólki úr mannvirkjum, en þessi sveit. Hún hefur allan búnað, þekkingu og getu til þess og þarna vinna sjálfboðaliðar göfugt starf sem má engan veginn á halla (Forseti hringir.) með breytingum á þessum lögum.