139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[18:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara hér mikið efnislega í þetta mál í kjölfar framsöguræðu hv. þingmanns, 1. flutningsmanns tillögunnar, en vil þó gera athugasemd við það að þessu máli verði vísað til allsherjarnefndar. Ég tel að í málum af þessum toga eigi fyrst og fremst að horfa á efni tillögunnar sjálfrar. Ég tel eðlilegt að henni verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vegna þess að það er í raun og veru verið að fjalla hér um fiskveiðistjórnarkerfið. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem slík er tæknileg útfærsla. Við vitum að allar kosningar eru á hendi dómsmála- og mannréttindaráðuneytis, framkvæmd þeirra, enda þótt efni þeirra geti fallið undir annað ráðuneyti. Er nærtækt að minnast þar t.d. á sveitarstjórnarkosningar. Þær heyra undir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið þótt sveitarstjórnarmál heyri undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Ég get líka nefnt í þessu sambandi að þegar verið var að fjalla hér sumarið 2009 um þingsályktunartillögu um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu var sömuleiðis umræða um það hvort ætti að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál og kom m.a. fram sérstök tillaga þar að lútandi. Um það mál var fjallað á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem hér var um utanríkismál að ræða þannig að það var efni málsins sjálfs sem réð því hvar málið var til umfjöllunar.

Ég tel þess vegna með sama hætti eðlilegt að um þetta mál sé rætt á vettvangi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þó að það kunni að vera rök fyrir því að fá umsögn frá allsherjarnefnd um málið tel ég að forræði málsins eigi að vera á hendi þeirrar nefndar.