139. löggjafarþing — 16. fundur,  20. okt. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðarskipan fiskveiðistjórnar.

44. mál
[19:03]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að leyfa mér að mótmæla því að ekki hafi verið fulltrúar fólksins í landinu, eins og hv. þingmaður orðar það, í þessum hópi heldur hafi sáttin fyrst og fremst náðst við þá sem hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Ég leyfi mér að mótmæla því og beini til hv. þingmanns þessum spurningum: Hvaða fjárhagslega hagsmuni telur hv. þingmaðurinn að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi af því að ná samkomulagi um þetta mál? Hvaða fjárhagslegu hagsmuni höfðu báðir fulltrúar Samfylkingarinnar í hópnum? Hvaða fjárhagslegu hagsmuna var fulltrúi fiskverkafólks, Starfsgreinasambandsins, að gæta í þessum hópi o.s.frv.? Þetta stenst enga rökræðu. Þetta var ekki sátt um fjárhagslega hagsmuni, enda þótt einhverjir í þessum hópi hafi að sjálfsögðu slíka hagsmuni í huga. Það var ekki sú breiða sátt sem náðist í þessum hópi, heldur fyrst og fremst um tilhögun veiðanna í framtíðinni. Það eru hagsmunir okkar allra en ekki endilega fjárhagslegir hagsmunir, þ.e. það sem kemur beint í vasann hjá okkur.

Varðandi það hvort bera eigi væntanlegt frumvarp undir þjóðaratkvæðagreiðslu sé ég engan tilgang í því vegna þess að það hefur náðst breið samstaða um málið meðal stjórnmálaflokka á Alþingi, allra stjórnmálaflokka utan eins flokks, og meðal fulltrúa allra aðila í samfélaginu, stéttarfélaga, útgerða, undirmanna, yfirmanna, fiskverkafólks o.s.frv. Ég sé ekki tilganginn í því að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir það, verði frumvarpið á annað borð byggt á þeim gögnum og þeim niðurstöðum sem hópurinn skilaði frá sér.