139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

Bankasýslan.

[10:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það, það er óumdeilt og forstöðumaður Bankasýslunnar hefur viðurkennt að Bankasýslan fer á svig við lög og reglur. Það lá alveg fyrir að settar voru verklagsreglur til að tryggja gagnsæi og jafnræði. Þær verklagsreglur voru brotnar. Reyndar voru þær bara teknar af heimasíðunni og forstöðumaður Bankasýslunnar segir að það sé allt í fínu lagi. Hér kemur hæstv. fjármálaráðherra og heldur eins langa ræðu og hann mögulega getur um eitthvað allt annað.

Ég spurði hæstv. ráðherra, vegna þess að þessi stofnun er á ábyrgð fjármálaráðuneytisins, hvað hann ætlar að gera í því þegar stofnunin fer á svig við lög og reglur. Ef ég skildi hæstv. fjármálaráðherra rétt ætlar hann ekki að gera nokkurn skapaðan hlut í því (Forseti hringir.) og finnst það mjög eðlilegt. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra um að hafa afskipti af málum innan bankans og hæstv. ráðherra veit það, en hann ákvað (Forseti hringir.) að eyða tveimur mínútum í tóman útúrsnúning.