139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það má segja að þetta sé sögulegt frumvarp. Ekki er einungis verið að leggja til að fyrningarfrestur breytist úr því að vera 20 ár, 10 ár eða fjögur ár, niður í tvö, heldur er líka verið að segja að það verði nánast útilokað að rjúfa fyrningarfrestinn, hvort tveggja í sama máli.

Hæstv. ráðherra vék að því hér að menn vildu ógjarnan fara í gegnum það nálarauga sem gjaldþrot væri. Ég segi: Greiðsluaðlögunin er líka slíkt nálarauga. Þar eru menn að ganga til samninga um að nota allt það svigrúm sem þeir hafa í nokkur ár til þess að standa við þegar gefnar skuldbindingar. (Utanrrh.: Einu ári lengur.) Ef við skoðum tölurnar sést að margir þeirra sem þegar hafa farið í greiðsluaðlögun eru aftur komnir í vanskil og hvað segir það okkur? Þetta er ekkert grín. Ef eitthvað óvænt kemur upp á, það springur hljóðkútur á bílnum eða einhver áföll verða er greinilegt að svigrúmið er afskaplega takmarkað. Þess vegna hefur það verið tillaga okkar að skilyrði þess að fá greiðsluaðlögun verði rýmkuð og neysluviðmiðin verði hækkuð o.s.frv.

Það má heldur ekki gleyma því í þessari umræðu að við erum ekki bara að ræða um samanburðinn á milli þess að fara í gjaldþrot og í greiðsluaðlögun. Við erum líka að tala um almenna hvatann til að standa í skilum alveg óháð því hvort fólk ætlar að fara í greiðsluaðlögun eða ekki. Ef fólk sér fram á að það er að lenda í vanskilum og á erfitt með að standa í skilum megum við ekki hafa búið til slíkan hvata að fólk segi við sjálft sig að nú sé tækifærið til að fara með þetta allt saman í þrot vegna þess að þar með komist á tveggja ára fyrningarreglan (Forseti hringir.) sem muni á endanum skera það úr snörunni. Við verðum líka að hafa í huga þennan almenna hvata til að standa í skilum.