139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Þetta er með svartsýnustu ræðum sem ég hef heyrt hæstv. utanríkisráðherra flytja. Ég átti von á því að hann kæmi í mikilli bjartsýni og tæki undir tillöguna, (Gripið fram í.) tæki tillögunni með opnum huga. Mér þykir hæstv. ráðherra frekar reyna að draga þetta mál niður.

Það eru ýmsir möguleikar varðandi Drekasvæðið. Einn af þeim væri einfaldlega sá að fara til viðræðna við olíuþjóðina Norðmenn og athuga hvort þeir væru ekki til viðræðu um kaup á þeim réttindum sem Íslendingar eiga þarna. Þar með gætum við gert upp ótal verkefni, skuldir okkar og jafnvel fjármagnað aðildarumsókn að Evrópusambandinu einu. (Gripið fram í.) Það er því ýmislegt til í stöðunni og ýmsir kostir sem Íslendingum bjóðast. Við eigum gríðarleg verðmæti, hugsanlega þarna, jafnvel á Gammsvæðinu. Ég tel einboðið að vinda okkur í að rannsaka það.

Ég bendi einfaldlega á það í þessari umræðu vegna þess að hæstv. ráðherra nefndi hvort við hefðum val um að fara í annað verkefnið eða bæði. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum val um að sitja annaðhvort með hendur í skauti og gera ekki neitt eða ganga til þessara verka. Ég tel fullt færi til þess í fjárlögum í ljósi þess að ein af örfáum góðum tillögum þar inni er að gert er ráð fyrir að auka fé til rannsókna. Hvers vegna í ósköpunum skyldu menn þá ekki forgangsraða í því sem strax gæti gefið einhverjar tekjur í tóman ríkiskassann með því að setja það í forgang, þar með talin þessi tvö verkefni sem hér hafa orðið að umtalsefni?