139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma upp til að þakka hv. þingmanni fyrir þær athugasemdir sem hafa komið fram í andsvörum hennar. Ég vil taka undir þetta síðasta sem kom fram hjá hv. þingmanni að lífeyrissjóðirnir hafa vitanlega mikinn hag af því að heimilunum sé bjargað, að þeim sé komið á ról, þannig að sem flestir geti áfram búið í sínu húsnæði. Við sjáum ekki fyrir endann á því í rauninni hvað gerist með lífeyrissjóðina og aðra þá sem eiga veð í öllum þessum fasteignum ef þessi neikvæði spírall sem hér var rætt um heldur áfram eða ef þúsundir heimila, segjum bara 15–20% fasteigna, lenda hjá þessum aðilum. Það eru gríðarlega háar upphæðir sem þeir sitja þá uppi með í formi þessara eigna. Lífeyrissjóðirnir ættu vitanlega að taka því fagnandi að hjálpa þeim aðilum sem eru greiðendur í lífeyrissjóðina og framtíðargreiðendur flestir hverjir, sem betur fer. Að sjálfsögðu þurfum við um leið að horfa til þess að hér verði stöðugt og öflugt atvinnulíf og allt það.

En það er nánast óskiljanlegt hvernig lífeyrissjóðirnir hafa brugðist við þessum tillögum, ekki síst í ljósi þess að þær stofnanir sem hér um ræðir víluðu ekkert fyrir sér að setja 60 milljarða í framtakssjóð sem gengur svona og svona að fá í verkefni sem eru samfélagslega mikilvæg en það er ekkert mál að kaupa timbursölu eða plastfabrikku eða eitthvað slíkt sem hafa á síðasta ári tapað samanlagt, að mig minnir, nærri einum milljarða króna. Ætla lífeyrissjóðirnir að leggja þessum fyrirtækjum til fjármagn úr sameiginlegum sjóðum þeirra sem í þá greiða? En það má ekki taka á sig nokkra milljarða eða nokkra tugi milljarða til að bjarga heimilunum og koma hagkerfinu í gang.

Frú forseti. Þetta er allt sama bixið sem um er að ræða þegar við ræðum um lífeyrissjóðina, ASÍ og Samtök atvinnulífsins.