139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þm. Róberti Marshall að stjórnmál á Íslandi eru komin í ákveðið öngstræti. Ég er þeirrar skoðunar eins og margir fleiri að efnahagskreppan á Íslandi sé í rauninni orðin stjórnmálakreppa. Mér fannst hún ná ákveðnu hámarki í gær þegar hæstv. forsætisráðherra lýsti sjálfri sér og ríkisstjórninni sem kraftaverkafólki og efaðist um að þau mótmæli sem áttu sér stað beindust gegn ríkisstjórninni, þau beindust aftur gegn öllu öðru en ríkisstjórninni. Mér fannst felast ákveðin veruleikafirring í þessum orðum og vanmat á stöðunni í samfélaginu, að menn lýsi sig kraftaverkafólk á sama tíma og þúsundir manna ganga um atvinnulausar og hundruð manna þurfa að þiggja matargjafir, að þá gefi hæstv. forsætisráðherra og stjórnarliðar sér slíka einkunn.

Vandi stjórnmálanna í dag er sá að hér er við völd ríkisstjórn sem ekki hefur burði til þess að leysa vanda heimila og fyrirtækja. Hún trommar upp alls kyns væntingar sem hún getur síðan ekki staðið við. Ríkisstjórnin er í rauninni eina stofnun samfélagsins sem ekki hefur lagt fram einhverjar tillögur eða hugmyndir til lausna á vanda heimilanna og fyrirtækjanna. Það hefur ASÍ gert, það hafa Samtök atvinnulífsins gert, framsóknarmenn ræddu sínar hugmyndir í gær og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að taka sínar tillögur til umræðu í dag. En allar þessar hugmyndir hafa verið slegnir út af borðinu af ríkisstjórninni, væntanlega vegna þess að þær komu ekki frá réttum aðilum. Svo tala menn um ný vinnubrögð. Ríkisstjórnin rær í kolvitlausa átt, hún býr ekki til störf fyrir fólkið í landinu, hún skemmir fyrir og svíkur þá sáttmála sem hún hefur skrifað undir. Það er það (Forseti hringir.) ástand sem verður að breytast og ég verð að segja það að ég hef ekki mikla trú á að það ástand muni breytast meðan sú ríkisstjórn sem nú er við (Forseti hringir.) völd situr áfram. Meðan svo er verður áfram (Forseti hringir.) sú stjórnmálakreppa sem hv. þingmaður lýsti.