139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:16]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Tillögur sjálfstæðismanna í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er verið að ræða um að stuðli að sátt við heimilin og verji velferðina með ábyrgum ríkisfjármálum, efli atvinnulífið og fjölgi störfum er af svipuðum meiði og við ræddum í gær frá framsóknarmönnum um samvinnuráð um þjóðarsátt. Ég skildi reyndar ekki af hverju samvinnuráðið var ekki kallað samvinnuráð íslenskra stjórnvalda, skammstafað SÍS, það hefði verið táknrænt. Af því að tíminn er naumur hér í umræðu um þingsályktunartillöguna, aðeins 10 mínútur hjá hverjum þingmanni, ætla ég að gera að umræðuefni það sem hér kemur fram um að efla atvinnu og gefa í hvað það varðar. Það er auðvitað annað grundvallaratriði sem blasir við öllum stjórnmálamönnum í dag og okkur hér á Alþingi, það er að gefa í hvað varðar atvinnulífið, skapa forsendur til að atvinnulífið geti eflst. Við ætlum ekki að skapa störf. Ríkið, Alþingi, á ekki að skapa störf, við eigum að skapa forsendur.

Hitt atriðið er skuldavandi heimilanna. Ég hef ekki tíma til að ræða hann hér nú en geri það kannski síðar í dag. Ég minni hins vegar á að það er verið að vinna í honum og vonandi koma út úr þeirri vinnu vitrænar tillögur þar sem þeim verður hjálpað mest sem þurfa á mestri hjálp að halda, en þeim ekki hjálpað neitt sem ekki þurfa á hjálp að halda.

Virðulegi forseti. Yfir í atvinnumálin. Það er grundvallaratriði til þess að við vinnum okkur út úr þessari kreppu að við aukum hér hagvöxt og aftur hagvöxt. Það er forsenda fyrir því að við vinnum okkur út úr þessari kreppu. Þess vegna verðum við að snúa okkur að uppgangi atvinnulífsins og efla störf. Þá er allt undir að mínu mati, alveg sama hvað það heitir. Í þeirri kreppu sem við erum í þar sem 11 þús. samborgarar okkar ganga lausir, sem kostar okkur 27–30 milljarða á ári, getum við ekkert flokkað úr og sagt: Þetta kemur ekki til greina, en frekar hitt.

Virðulegi forseti. Þetta er grundvallaratriðið. Í þessu sambandi vil ég líka nefna endurskipulagningu á þeim fyrirtækjum sem eru í gangi í dag. Þau eru mörg og eru í vandræðum og þurfa fjárhagslega endurskipulagningu. Það er talað um að það séu 5–6 þús. fyrirtæki. Ef okkur tækist að gefa í hvað það varðar og bankakerfið hjálpaði þessum fyrirtækjum og hvert og eitt einasta þeirra gæti ráðið einn starfsmann (Gripið fram í: Já.) væru það 5–6 þús. störf, eða ef það væri bara annað hvert fyrirtæki væru það 2.500–3.000 störf. Þar að auki eru stór verkefni í gangi sem geta komið líka hér til og eiga að koma til.

Ef það er rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hér áðan, að við gætum aukið tekjur ríkissjóðs um 36 milljarða kr. með því að skapa hér 12 þús. störf, að 12 þús. menn komist til vinnu, þ.e. þeir sem ganga atvinnulausir í dag, minni ég á að við losnum við 27–30 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur. (TÞH: Það er inni í þessu.) Þetta eru 60–66 milljarðar kr., virðulegi forseti. (Gripið fram í: Það er inni í þessu.) Niðurskurðurinn hjá okkur núna er 33 milljarðar kr. og það er allt vitlaust af þeim niðurskurði, eðlilega. Þannig þarf að gefa í og þá er alveg sama hvað er undir.

Við þurfum hér erlenda fjárfestingu. Hún hefur jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf og er nauðsynleg vegna þess að við þurfum meira eigið fé í verkefnin, í atvinnuuppbygginguna og þeir peningar eru ekki mikið til hér í íslenskum fyrirtækjum í dag.

Þegar við tölum núna um að Helguvíkurverkefnið, sem mikið er rætt um, sé stopp vegna stjórnvalda spyr ég: Er það sanngjarnt og er rétt að segja það? Ég held ekki, virðulegi forseti. Sem nýkjörinn formaður iðnaðarnefndar hef ég farið svolítið vel ofan í þessi mál. Að mínu mati kemur þar fram að ekki hefur staðið á hlutum þar. Skipulagsmál Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar eru hins vegar ekki búin, forsendan fyrir frekari stækkun Reykjanesvirkjunar.

Eftir hrun hefur lánshæfi fyrirtækja versnað til mikilla muna sem kemur fram í verri lánskjörum og erfiðleikum við fjármögnun. Ætli það sé ekki eitt af atriðunum þarna suður frá sem stoppar okkur núna?

Framvinda verkefnisins suður í Helguvík sem er að byggja þar 270 þús. tonna álver í þremur áföngum, sem var byrjað áður en þessi ríkisstjórn var mynduð og var samið um að mundi hafa sinn framgang, mun hafa sinn framgang eins og formaður Vinstri grænna hefur sagt á íbúafundi þar suður frá. Þess vegna þarf að gefa í hvað þetta varðar og gera allt sem hægt er að gera til að koma þessu verkefni í fluggír á ný. Þarna munu skapast 10 þús. ársverk og upp undir 12 milljarðar kr. munu koma til ríkisins á hverju ári. Þetta verkefni er hins vegar að mínu mati núna í höndum hagsmunaaðilanna, þ.e. framkvæmdaraðilans og orkufyrirtækjanna, auk þeirra sveitarfélaga sem eiga orkuauðlindirnar eins og ég talaði um um áðan, sem þurfa að ná samkomulagi um verð á raforku og öðrum þáttum. Þá er hægt að gefa í. Ég hef fulla trú á því að sá mánuður sem nýbyrjaður er gæti verið sá mánuður þegar þetta mál klárast og að verkefnið fari þá á fulla ferð, hvort sem það er 1. áfangi eða 1. og 2. áfangi.

Virðulegi forseti. Úr því að ég er að tala um stóriðjuna á Suðurnesjum er hún studd af hagsmunaaðilum á vinnumarkaði, bæði Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins. Fulltrúar Norðurþings óskuðu eftir að koma á fund iðnaðarnefndar sem haldinn var með fjarfundabúnaði og tókst mjög vel. Þar kynntu Norðurþingsmenn fyrir nefndinni nýja úttekt sem gerð hefur verið á 180 þús. tonna álver við Húsavík. Staðreyndin er sú að arðsemismat af þeirri stærð er gott og þetta verkefni mun ganga upp peningalega ef stofnað verður eitt félag um þetta allt saman, þar með talið orkuvinnsluna til að byrja með. Þess vegna held ég líka, virðulegi forseti, að það verkefni fái aukið vægi og verði gert meira í núna á næstu mánuðum þegar hinu sameiginlega umhverfismati lýkur í lok þessa mánaðar. Þá verður að skoða þá þætti. Það er umdeilt atriði.

Margir tala um að það eigi að gera eitthvað þar annað en að byggja álver. Norðurþingsmenn og Þingeyingar hafa beðið eftir þessu einhverju öðru í langan, langan tíma — en það hefur bara ekki komið. Ég þekki það sem þingmaður þessa kjördæmis að fyrir hverjar einustu kosningar voru boðaðar einhverjar verksmiðjur sem áttu að skapa störf, en engin þeirra er komin. Núverandi hæstv. iðnaðarráðherra setti þetta í ákveðinn farveg með samstarfsnefnd sem gengur undir nafninu Naust. Sú nefnd er að skila niðurstöðu þar sem tvö atriði eru sett í A-flokk og annað þeirra er álverksmiðja sem byggð yrði þar. Þar eru líklegir tveir aðilar, Alcoa og Bonsai.

Ef ekkert annað er í boði eftir þessa miklu athugun en að gera þetta þar eigum við að einhenda okkur í það verkefni. Það eina sem Norðlendingar og Þingeyingar fara fram á er í raun og veru þetta, þá langar að virkja orkuna sem er á norðausturhorninu, búa til úr henni atvinnu og útflutningsverðmæti til að skapa störf. Það er nákvæmlega það sama og er búið að gera í tugi ára uppi á Hellisheiði. Orkuveita Reykjavíkur hefur virkjað allt uppi á Hellisheiði og gerir enn með stuðningi allra flokka sem hafa átt sæti í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta er flott, þetta eru miklar virkjanir um heitt vatn og rafmagn. Fyrirtækið hefur verið gott hingað til og vonandi leysist úr fjárhagsvanda þess þegar krónan styrkist enn frekar. Þessi orka hefur verið notuð og þá hlýtur það að vera líka með samkomulagi allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur vegna þess að allir flokkar hafa að mínu mati komið að samningum um orkusölu til álversins í Straumsvík, til álversins á Grundartanga, til stækkunar þar, og nú til framkvæmda suður í Helguvík.

Virðulegi forseti. Sá sem hér talar er enginn sérstakur unnandi þess og telur ekki að við getum leyst atvinnuvanda okkar með því að reisa álver í hverjum firði og hverri vík. Það er engin óskastaða að vera með öll eggin í sömu körfunni, sama hvort það er þetta eða eitthvað annað. En ef ekkert annað er í stöðunni, virðulegi forseti, nú þegar við erum í þessari kreppu verðum við að einhenda okkur í þetta verkefni.

Virðulegi forseti. Nú er tími minn að verða búinn. Ég ætla að nefna eitt atriði í lokin, stórátak í samgönguframkvæmdum sem líka mun skapa fjölmörg störf. Þær viðræður eru í gangi við lífeyrissjóðina, hafa gengið seint vegna þess að ekkert hefur verið til í forskrift um hvernig þetta ætti að vera, en það hefur líka gengið seint vegna þess að þegar einhver ætlar að taka lán og einhver ætlar að lána er aðalatriðið hverjir vextirnir verða. Núna er tekist á um það. Ég er hins vegar orðinn mjög bjartsýnn á að þetta verkefni klárist. Þá munu fjölmargir fá vinnu við þetta stórátak í samgönguframkvæmdum, plús það að skapa enn meira umferðaröryggi á þeim svæðum sem við ætlum að fara í.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna um leið og ég þakka sjálfstæðismönnum (Forseti hringir.) fyrir þessa þingsályktunartillögu (Forseti hringir.) svo og framsóknarmönnum fyrir tillöguna í gær. Ég tel að hér sé kominn (Forseti hringir.) grundvöllur fyrir núverandi (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn og stjórnmálaflokka á Íslandi til að taka höndum saman (Forseti hringir.) og klára þessi verkefni (Forseti hringir.) sem eru svo brýn (Forseti hringir.) án þess að vera sífellt (Forseti hringir.) í fýlu og hlaupa út af (Forseti hringir.) fundum eða ekki hlaupa út af fundum.