139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir ræðuna sem var um margt alveg prýðileg. Ég er alveg hjartanlega sammála honum í því að það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að skapa forsendur til þess að auka hér hagvöxt. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum, stóra málið er að auka hagvöxt. Það er óþolandi að sjá fólk ganga um atvinnulaust. Það er ekki bara óþolandi, það skapar endalaus vandamál. Við horfum upp á að fólk bíður hundruðum saman eftir matargjöfum og við nýtum ekki þau tækifæri sem Ísland hefur upp á að bjóða til að skapa hér atvinnu. Ég taldi að hv. þingmaður væri að tala á þeim nótum og tæki fagnandi þeim hugmyndum sem hér eru. Það skiptir auðvitað engu máli hvaðan hugmyndirnar koma, aðalatriðið er að þær komist í framkvæmd og við náum þeim markmiðum sem hv. þingmaður nefndi.

Þá erum við komin að þeim þætti málsins sem snýr að framkvæmdinni. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin og sérstaklega — kannski eingöngu, ég veit það ekki — Vinstri grænir hafa staðið gegn því að við nýttum hér þau tækifæri sem þetta land hefur upp á að bjóða. Þau hafa staðið gegn því að við sköpuðum hér atvinnu. Þau hafa þar af leiðandi staðið fyrir því að fólk er ýmist atvinnulaust eða flytur úr landi.

Ég spyr hv. þingmann í fullri einlægni: Hvað getum við gert? Það er enginn vafi í mínum huga að það er þingmeirihluti til að fara í langflest þessara verkefna sem eru nefnd. Það er þingmeirihluti fyrir því að skapa hér skilyrði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og nýta orkuna til að skapa atvinnu í landinu.

Hv. þingmaður þekkir þessi mál frá fyrstu hendi, nýkominn úr hæstv. (Forseti hringir.) ríkisstjórn. Ég spyr hann bara ráða: Hvað getum við gert? (Forseti hringir.)