139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Seðlabankinn var fenginn til þessa verks í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn var þátttakandi í. Þær niðurstöður voru birtar en það vantaði ýmislegt inn í og þar var aðalþröskuldurinn Persónuvernd. Ég skora á hv. þingheim að bara núna um helgina eða í næstu viku verði fundað með Persónuvernd og fundin lausn á þessu. Það gengur ekki að þjóðfélagið sé allt að því í hættulegri stöðu vegna þess að menn finni ekki leiðir til að komast hjá Persónuvernd. Þær leiðir eru til. Það er hægt að safna svona gögnum saman í eitthvað sem mætti kalla myrkraherbergi þar sem upplýsingarnar fara inn en koma ekki aftur út. Þetta er allt hægt. Þetta eigum við að gera og við eigum að gera þetta reglulega héðan í frá. Mér finnst að þingheimur eigi að vinna í þessu núna. Ég mundi fagna því ef hv. þingmaður tæki höndum saman með okkur í því að vinna svona frumvarp hratt og vel en örugglega í næstu viku.