139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

undirbúningur fangelsisbyggingar.

[15:18]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð um liðið síðan ákvörðun var tekin um að reisa nýtt fangelsi þótt það sé ekki fyrr en nú á síðari stigum að tillaga hefur verið sett fram um að fangelsið verði reist á Hólmsheiði. Það er þó ekki fastara í hendi en svo að menn eru tilbúnir að skoða aðra kosti ef þeir reynast ódýrari eða hagkvæmari og það hafa komið tillögur frá öðrum byggðarlögum um að fá fangelsi til sín.

Ákvörðun um að fela danskri arkitektastofu að annast verkefnið er ekki ný af nálinni, hún varð til í tíð hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Þá var ákvörðun um þetta tekin.