139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

undirbúningur fangelsisbyggingar.

[15:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það liggur beint við að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann telji að staða í atvinnulífinu sé með sama hætti núna haustið 2010 og þegar hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, sat í dómsmálaráðuneytinu við allt aðrar aðstæður í íslensku efnahagslífi.

Það er grundvallaratriði að fá þá fram hvort ríkisstjórnin hyggist reisa fangelsi við Hólmsheiði eða hvort ætlunin sé, eins og hæstv. dómsmálaráðherra lét að liggja, að gera aðrar breytingar á sviði fangelsismála og jafnvel þá byggja hluta starfseminnar annars staðar eða stækka þær einingar sem fyrir hendi eru. Það er þá ágætt að gera það áður en menn fara í samningaviðræður við erlenda arkitekta um þessi verkefni. Ég vil bara fá svar við því hjá hæstv. dómsmálaráðherra hvort hann hyggist hafa það með þeim hætti að þessi danska arkitektastofa sem hér hefur verið nefnd, Alex Poulsen Arkitekter, hafi fengið það verkefni að fara í þessa hönnun á fangelsi í Hólmsheiði. Og hvað er sá kostnaður mikill?