139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

fjarskipti.

136. mál
[15:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að fyrirhugaður er í fyrramálið fundur með mér og fulltrúum samgönguráðuneytisins með samgöngunefnd til að fara yfir þau frumvörp sem lögð verða fram á þessu þingi.

Það er spurt hvort út af hafi staðið veigamikil atriði eftir samráð við hagsmunaaðila. Ég var að leita eftir því við sérfræðinga ráðuneytisins hvort svo hefði verið og treysti mér ekki til að svara því á þessari stundu en ég skal hafa það fyrir fund samgöngunefndar í fyrramálið.

Í þriðja lagi er vakin athygli á verðlagsþróun en það sem við erum að leggja til hér er að gjald sem tekið er fyrir notkun fjarskiptatíðnisviða muni fylgja verðlagsþróun. Við erum að tala um upphæðir á bilinu 100 milljónir rúmlega og hugsanlega 30 til viðbótar ef við förum í útboð á nýjum sviðum. Hér er einfaldlega verið að leggja til að við höldum verðgildi krónunnar hvað þetta snertir.

Í fjórða lagi víkur hv. þingmaður að fjarskiptanetinu í heild sinni, grunnnetunum í heild sinni, nokkuð sem við hefðum betur haft á einni hendi. Það er að koma betur og betur í ljós núna að samræmd kerfi, og þá á vegum hins opinbera, er það sem við hefðum náttúrlega helst viljað og nokkuð sem við þurfum að horfa til í framtíðinni. Þar er ég að tala um símasviðið og við erum að tala um fleiri viðfangsefni í þessari samskiptaáætlun vegna þess að nýmæli með henni er í rauninni að færa inn í sama lagabálkinn fjarskipti sem hafa verið með ýmsu móti og verið í mismunandi lögum.