139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð viðbrögð við þessum tillögum okkar sjálfstæðismanna. Það er í samræmi við þau viðbrögð sem við heyrum bæði héðan úr þingsalnum og víða að úr samfélaginu.

Hv. þingmaður spurði af hverju við værum ekki með tillögur um almenna niðurfærslu á skuldum heimilanna. Svarið er einfaldlega það að við komumst að því að það mundi ekki skila þeim tilskilda árangri sem við þurfum á að halda gagnvart hagsmunum heimilanna og þess vegna höfum við farið aðrar leiðir.

Það er hins vegar misskilningur hjá hv. þingmanni að eina tillagan sem sjálfstæðismenn leggi til varðandi málefni heimilanna felist í þessari 50% lækkun á greiðslubyrði fasteignalána. Ef hv. þingmaður læsi I. kafla þingsályktunartillögunnar sæi hann að tillögur okkar, sem snúa að málefnum heimilanna, eru í tíu tölusettum liðum og þar ætla ég að fullyrða að er að finna margs konar úrræði sem mundu koma að miklu gagni fyrir heimilin í landinu.