139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framtíð Reykjavíkurflugvallar og samgöngumiðstöð.

[13:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt. Hugmyndin er sú að fá fjármuni frá lífeyrissjóðunum til að fjármagna þessa framkvæmd og að hún verði að uppistöðu til kostuð með þjónustugjöldum. Þess vegna eru flugrekendur sem fyrirtækin, hygg ég, ég held að ég fari þar örugglega með rétt mál, sátt við að fá ódýrari framkvæmd með því að reisa mannvirkið við vesturhluta vallarins. Það var það sem þau lögðu upphaflega upp með. Það voru óskir þeirra. Þær stóðu í þessa átt. Síðan komu hugmyndir um að tengja flugvöllinn þjónustu í borginni og ef hann flytti væri þar þjónustumiðstöð fyrir samgöngur til frambúðar. Það er margt í þessu.

Ég hygg að um þetta gæti orðið góð sátt milli stjórnvalda annars vegar og þeirra sem annast flugrekstur í landinu hins vegar. Hvernig á síðan að greiða úr þeim deilum sem uppi eru um framtíð flugvallarins? Þar þarf bara að horfa raunsætt á það að við erum ekki á einu máli. Það eru deilur sem ganga þvert á alla stjórnmálaflokka, hygg ég. Ég er því eindregið fylgjandi að flugvöllurinn verði í Vatnsmýri, ég tel það vera hagsmunamál, ekki bara fyrir landsbyggðina heldur líka fyrir Reykvíkinga, að hafa flugvöllinn þarna.

Ég hef marglýst yfir þeirri skoðun minni að þegar spurt er um lýðræðislegan vilja í því efni á að spyrja þjóðina alla, ekki einvörðungu Reykvíkinga. Þetta kemur okkur öllum við, þetta er höfuðborgin okkar allra og þetta eru flugsamgöngur sem snerta okkur öll, hvar sem við búum í landinu.