139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

flutningur málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga.

[14:26]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að málið sé tekið hér upp um flutning á málefnum fólks með fötlun yfir til sveitarfélaganna um áramótin. Það hefur staðið til lengi og legið ljóst fyrir að ætlunin er að færa málaflokkinn. Því er von að menn spyrji þá: Hvenær á að skrifa undir?

Það er í rauninni ekki búið að dagsetja það, ég var að vona að það yrði gert um síðustu helgi en það náðist ekki, einmitt út af þessari stéttarfélagsaðild sem spurt er um. Samningurinn liggur fyrir og hefur legið fyrir í nokkuð langan tíma, gæti þó tekið einhverjum smávægilegum breytingum vegna þessa stéttarfélagsákvæðis. Ég vona að það verði gert eins fljótt og hægt er.

Frumvarpið var tekið fyrir í ríkisstjórn á þriðjudaginn var og fer í gegnum þingflokkana núna í dag vona ég, stjórnarþingflokkana. Ég vona að málið komi inn í þingið annaðhvort á morgun eða hinn þannig að það verði tekið fyrir hér sem allra fyrst. Það hefur náðst bærileg sátt um það frumvarp meðal hagsmunaaðila, hvort sem er frá sveitarfélögum eða hagsmunasamtökum. Auðvitað hefur verið ágreiningur um ákveðin atriði, sérstaklega hversu mikið eigi að taka inn samhliða yfirfærslunni, en það var eiginlega samkomulag um að málaflokkurinn færi yfir nokkuð óbreyttur. Síðan kæmi þetta þriggja ára aðlögunartímabil þar sem ríkið skuldbindur sig til að taka t.d. upp sáttmála Sameinuðu þjóðanna um fólk með fötlun, eftirlitskerfi, tilsjónarmannakerfi o.s.frv. Þetta yrði áfram í vinnu þannig að það er ekki full sátt um það í sjálfu sér, en er þó sátt um að leggja frumvarpið fram eins og það kemur inn í þingið.

Varðandi stéttarfélagsaðildina höfum við fundað undanfarna daga með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fulltrúum þess. Þetta er fyrst og fremst á forræði fjármálaráðuneytisins en ég hef komið þar að sem félags- og tryggingamálaráðherra og einnig sveitarstjórnarráðherra. Þar er verið að henda á milli hugmyndum um það hvernig megi leysa það mál. Ég vona að það klárist á næstu dögum.