139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég vann að því á sínum tíma með hæstv. heilbrigðisráðherra þess tíma, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að setja af stað Sjúkratryggingar Íslands. Því miður hefur margt af því sem þar var lagt upp með alls ekki gengið eftir. Margt af því sem menn höfðu hugsað sér á árinu 2007, þegar lagt var af stað, m.a. með kostnaðargreiningu læknisverka, hefur ekki gengið eftir sem skyldi. Ég hef því óskað eftir því og hef verið að undirbúa að við förum yfir þetta að nýju, skoðum og endurmetum hversu umfangsmikil starfsemi slíkrar stofnunar geti verið eða hvort ástæða er til að sameina hana að nýju Tryggingastofnun ríkisins. Ég held að það sé ástæða til að við förum vel yfir það miðað við nýjar aðstæður þó að engar ákvarðanir hafi verið teknar hvað það varðar.

Þeir meginþættir sem lagt var upp með sem áttu að vera til viðbótar og lagfæringar — okkur hefur ekki tekist að láta þá ganga eftir og þess vegna er þetta frumvarp m.a. flutt hér.

Það má ekki rugla því við það að ég held að það hafi aldrei verið ætlun okkar að Sjúkratryggingar Íslands mundu gera drög að áætlunum varðandi fjárlög, þar þarf auðvitað að líta til fleiri þátta. Eftir sem áður er það rétt að það átti að reyna að meta kostnað af einstökum verkum og stýra þannig þjónustunni inn á þau svæði sem hagkvæmust væru hverju sinni, að búa til örlitla samkeppni inn á þessa markaði. Það hefur engan veginn gengið eftir þannig að ástæða og tilefni er til að endurskoða þau markmið miðað við reynsluna og miðað við það hversu mikið við treystum okkur til að láta í þennan útgjaldalið.