139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Okkur er nokkur vandi á höndum þar sem í þrjá mánuði var algjör óvissa um hvort fjármálamarkaðurinn stæðist eða ekki og enn er ekki komin lausn í það mál. Frumvarpið sem við ræðum hér er tilraun til að leysa það mál en ég sé þar ýmis vandkvæði. Og þó að ég vilji ekki vera leiðinlegur vil ég benda á að lán sem hafa verið dæmd ógild eru meðhöndluð mismunandi eftir því hver skuldarinn er, hvort hann er fyrirtæki eða einstaklingur eða sveitarfélag, og hver notkunin var, hvort það var notað til íbúðarkaupa, sumarbústaða, báta, bíla eða slíkt. Fyrsta spurningin er því sú: Er nægilega mikið jafnræði á milli skuldara? Hvað gerist með mann sem keypti sumarbústað með svona láni og flutti það svo yfir á íbúðina sína eða keypti íbúð með slíku láni og flutti það yfir? Hvernig ætla menn að afmarka það?