139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:23]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum verið að vinna með viðmið sem eru skuldir að hámarki 1.000 millj., 1 milljarður. Fyrirtæki með skuldsetningu innan þeirra marka færu í gegnum þennan einfaldari feril. Ef fyrirtæki skuldar 1.250 þá gildir í sjálfu sér engin önnur grundvallarviðmið um úrlausn skuldavanda út frá bankalegum forsendum. Það er þá alla vega mál sem eðlilegra er að bankinn skoði í hverju og einu tilviki, enda kunna þar að vera önnur sjónarmið sem skipta máli eins og hvort rétt sé að skipta um eignarhald í fyrirtækinu eða skipta upp fyrirtæki, taka á markaðsráðandi stöðu o.s.frv. Með stærri fyrirtækin er þetta oft flóknari sýn.

Grunnaðferðafræðin sem við höfum þróað byggir á viðurkenndum vinnubrögðum í skuldameðferð fyrirtækja og efnahagslegri endurreisn sem er margþróuð og reynd úr öðrum hagkerfum og miðar að því að gera fyrirtækjunum skynsamlegt og kleift að vinna sig út úr aðstæðunum. Menn hafi ákveðinn hag af því að gera það því við vitum að það verður mikið tjón ef við setjum öll fyrirtækin í gjaldþrot og það er samfélagslegur hagur okkar af því að endurreisa öflug fyrirtæki.

Fyrirtæki sem leita til bankanna lúta meðferð mála þeirra. Þau lúta eftirliti eftirlitsnefndarinnar um sérstaka skuldaaðlögun þannig að ef gengið er fram með óeðlilegum hætti þá falla málin þar undir. Með því að taka þennan stóra málafjölda í gegnum sérstakan ramma verður meira ráðrúm í bönkunum til að vinna úr stærri og flóknari málum og eyða tíma í þau.