139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

fjölmiðlar.

198. mál
[18:31]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er stórmál á ferðinni og kannski ekki furða þótt ekki hafi tekist að afgreiða það á einu þingi. Það er eðlilegt að löggjafarsamkundan þurfi að velta málum af þessu tagi fyrir sér og nauðsynlegt að fjölmiðlalög séu mjög vel ígrunduð í alla staði.

Ég ætla ekki að dvelja við einstakar greinar eða fara yfir frumvarpið eins og það er heldur aðeins segja að það sem rak mig til að taka til máls er að mig langar að beina beiðni til menntamálanefndar. Það fyrsta sem mig langar að nefna er það sem kom fram í ræðu hæstv. menntamálaráðherra, að tilurð frumvarpsins og helsta hvata að gerð þess má upphaflega rekja til tilskipunar Evrópusambandsins og ráðsins frá 2007.

Það vill nefnilega bregða við að þegar lög eru sett, ég tala nú ekki um svona viðamikil lög eins og þessi, á grundvelli tilskipana frá Evrópusambandinu koma inn í slík lög alls konar ákvæði sem ekki er endilega kveðið á um í tilskipuninni sjálfri. Í tilskipunum eru gerðar lágmarkskröfur en oft er aðildarríkjum, og í okkar tilfelli EES-ríki, heimilt að gera strangari kröfur í ákveðnum efnum. Það getur verið í auglýsingum og raunar hverju sem er. Síðan er enginn greinarmunur gerður á því hvað Evrópusambandið kallar á, hvað tilskipunin kallar á og hvar við göngum kannski lengra. Síðan tala menn um boð og bönn og að Evrópusambandið banni hitt og Evrópusambandið banni þetta eða leyfi ekki eitthvað annað.

Mig langar því að fara þess á leit við menntamálanefnd að hún geri í starfi sínu greinarmun á því sem kallað er eftir frá Evrópusambandinu eða í tilskipuninni og þegar við göngum lengra. Mér þætti vænt um að sjá fylgiskjal með nefndaráliti þar sem þetta væri sett upp. Ég held að það væri mjög fróðlegt.

Ég minnist þess, fyrir nokkuð mörgum árum síðan að vísu, að ég hlustaði á ræðu viðskiptaráðherra Breta sem þá var Michael Heseltine. Hann hafði látið fara í gegnum nokkur lög sem sett voru á grundvelli tilskipana í Bretlandi. Hann sagði að 65% af þeim reglum og lögum sem urðu til á grundvelli tilskipananna væru heimatilbúin og hefðu lítið eða ekkert með tilskipunina að gera. Þess vegna langar mig að fara fram á að menntamálanefnd taki saman svona lista og hann fylgi nefndaráliti.

Mig langar líka, virðulegi forseti, fyrst ég er komin hér, að tala aðeins um 8. gr. um skipan fjölmiðlanefndar. Þar stendur:

„Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu hafa sérþekkingu á fjölmiðlamálum og/eða menntun sem nýtist á þessu sviði.“

Við erum vissulega brennd af því hér á landi að misfarið er með vald til að skipa í embætti og einnig í nefndir. Stundum skiljum við ekki — og það er svo sem ekkert endilega horfið — hvernig fólk er skipað í nefndir eða embætti. Á hinn bóginn tel ég ekki að lærdómurinn af því sé sá að við þurfum að binda alla hluti í lög. Ég velti fyrir mér: Hvað þýðir að hafa sérþekkingu á fjölmiðlamálum? Er það að hafa verið blaðamaður, er það að hafa unnið á auglýsingastofu? Hvað er það? Til er á íslensku mjög gott orðatiltæki, við segjum stundum að eitthvað sé gert að bestu manna yfirsýn. Það er til alls konar fólk sem hefur þekkingu á hlutum, er víðsýnt og hefur, þótt það sé ekki með próf eða hefur ekki unnið í ákveðinni grein, vit á alls konar hlutum. Þess vegna finnst mér ekki gott að binda í lagagreinar að fólk skuli hafa sérþekkingu eða próf upp á vasann í ákveðnum greinum.

Ég er þó ekki að mæla með því að fólk sé tekið tvist og bast og menn ráði vini sína og vandamenn í störf. Ég er alls ekki að tala um það heldur að það á ekki að þurfa að binda alltaf í lög að við eigum að haga okkur eins og fólk.

Síðan vil ég taka undir það sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi áðan, ég sakna þess líka að hér sé sett frumvarp til laga um fjölmiðla en ekkert talað um Ríkisútvarpið. Ég tel nauðsyn á því að fara yfir hvernig starfsemi Ríkisútvarpsins er komið fyrir og þá á ég ekki eingöngu við auglýsingar og annað heldur tel ég að nauðsynlegt sé að fara yfir það mál, hvort sem það yrði tekið inn í þetta frumvarp eða eitthvað annað.

Ég vil að lokum líka taka undir orð hennar um að það væri gott að gera ástkæra ylhýra málinu greiða og fara í gegnum heitin á skilgreiningum í frumvarpinu.