139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

eftirlitskerfi ESB og Ísland.

[10:40]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Reglulega berast til Íslands ný tíðindi af því aðlögunarferli sem á sér stað vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Sum þessi tíðindi eru býsna óvænt og mig langaði til að gera eina frétt að umfjöllunarefni. Samkvæmt fréttum hefur Ísland nú verið fellt inn í eftirlitskerfi Evrópusambandsins með efnahagsmálum og hagstjórn aðildarríkja sem nefnist „EU pre-accession fiscal surveillance“ og hefur verið boðið að leggja fram eins konar efnahagsáætlun fyrir lok janúar. Þetta kemur m.a. fram í framvinduskýrslu Evrópusambandsins.

Ekki verður betur séð en að með þessu sé ekki einungis hafið hér aðlögunarferli að Evrópusambandinu, heldur að ESB sé búið að fella Ísland inn í eftirlitskerfi sitt með efnahags- og fjárhagsstöðu einstakra aðildarríkja og má í rauninni halda því fram að Evrópusambandið sé að verða eins konar tilsjónarmaður með fjármálum íslenska ríkisins. En það merkilega við þetta er að þetta virðist vera gert án þess að nokkur samningur hafi verið gerður um þetta milli Íslands og Evrópusambandsins og áður en fyrir liggur hvort aðildarsamningur verður samþykktur hér. Þar við bætist að ríkisstjórnin hefur ekki séð neina ástæðu til að skýra íslensku þjóðinni frá þessu, hvað þá þinginu, að landið sé komið undir eftirlit hjá Evrópusambandinu.

Það liggur fyrir boð um að leggja fram þessa skýrslu fyrir janúarlok (Forseti hringir.) og mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort til standi að leggja hana fram fyrir ráðamenn í Brussel og hvort íslenska ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sé að fella sig undir eftirlit Evrópusambandsins í efnahags- og hagstjórnarmálum.