139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

eftirlitskerfi ESB og Ísland.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eftir því sem ég best þekki til þessa máls hefur hv. þingmaður áhyggjur að óþörfu. Hér er ekki um það að ræða að Ísland sé að undirgangast eitthvert eftirlit eða boðvald á einn eða neinn hátt, heldur er hér um upplýsingamiðlun að ræða og í raun mjög hliðstæða upplýsingamiðlun og Ísland hefur hvort sem er veitt t.d. OECD á löngu undangengnu áratímabili. Reyndar hafa EFTA-ríkin og ESB-ríkin skipst á upplýsingum í tengslum við svonefnda Ecofin-fundi fjármálaráðherra landanna af hverjum ég kom í gærkvöldi. Ég held að hér sé ekki stór hætta á ferðum. Þetta er upplýsingamiðlun. Evrópusambandið vill eðli málsins samkvæmt hafa upplýsingar um það hvernig efnahagsmál þróast hér og reyndar, eins og áður segir, hafa bæði EFTA-ríkin og ESB-ríkin skipst á slíkum upplýsingum. Það er ekkert sérstakt nýtt í því.

Málið verður á forræði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins það ég best veit. Það mun halda utan um þessa upplýsingasöfnun en fjármálaráðuneytið mun að sjálfsögðu leggja lið í þeim efnum við að taka saman ýmsar ríkisfjármálaupplýsingar í sambandi við þjóðhagslegar upplýsingar sem þarna verða væntanlega kynntar í einhvers konar skýrslu eða greinargerð.