139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[11:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að benda hæstv. forseta á að ég er hér með þrjár gerðir af svörum frá hæstv. ráðherrum. Ég er með svarið sem hér hefur verið rætt, um rækjuveiðar. Ég er með svar frá fjármálaráðherra við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar um Sparisjóð Keflavíkur o.fl. og svar iðnaðarráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar. Svar iðnaðarráðherra er alveg til fyrirmyndar, það er mjög vel framsett, öllu svarað skýrt og skilmerkilega. Hin svörin frá hæstv. ráðherrum eru bara hreinlega galin. Þeim spurningum sem beint er til ráðherranna er ekki svarað. Hæstv. forseti verður að beita sér fyrir því að ráðuneytin og ráðherrarnir komi með svör við því sem spurt er um.

Ég hvet hæstv. forseta til að kynna sér þessi þrjú svör sem ég nefni hér, þau eru mjög ólík. Eitt þeirra er í lagi, tvö þeirra eru þannig að ekki er hægt að bjóða þingmönnum upp á þau.