139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

samgöngumál á suðvesturhorni landsins.

[11:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ef hæstv. samgönguráðherra hefði mætt með öðrum þingmönnum kjördæmisins sem við tilheyrum bæði og berum ábyrgð á, Suðvesturkjördæmis, og verið með okkur á fundi sveitarstjórnarmanna í síðustu kjördæmaviku hefði hann heyrt að mörg þung mál og erfið hvíla á sveitarstjórnarmönnum og íbúum okkar kjördæmis. Þar eru auðvitað efnahagsmálin efst á blaði en ekki síður voru samgöngumálin þar ofarlega.

Við höfum á umliðnum árum og áratugum samþykkt samgönguáætlanir þar sem áhersla á nýframkvæmdir á landsbyggðinni hefur verið mikil. Það er vel, það eru hagsmunir okkar allra að samgöngur séu góðar og að þær séu efldar um allt land. Ég vil hins vegar segja að þrátt fyrir þennan víðtæka skilning hérna inni á samgöngubótum á landsbyggðinni, sem er eðlilegur skilningur, útilokar hann ekki sérstaka umræðu um suðvesturhornið og höfuðborgarsvæðið. Ég tel þessa umræðu brýna, ekki síst eftir að hægt var að lesa í ummæli hæstv. samgönguráðherra í viðtali við Vísi ekki fyrir löngu síðan þar sem mér fannst ég rýna í lítinn skilning hæstv. samgönguráðherra á vanda höfuðborgarsvæðisins í samgöngumálum. Þess vegna vil ég líka taka þessa umræðu upp í þinginu.

Líkt og það er í þágu allra, frú forseti, að bæta samgöngur á landsbyggðinni gildir eðlilega það sama um höfuðborgarsvæðið allt og ég vona að við förum ekki að deila um það hér inni. Við skulum núna skoða aðeins nánar framlög til þessa svæðis. Á þessu svæði þar sem um 70% landsmanna búa vorum við á árunum 2006–2008, þegar við ræddum þá samgönguáætlun, að reyna að hysja hlutfallið til nýframkvæmda á þetta svæði upp í 20%. Það var svolítið deilt um hvort það væri ekki bara allt of lágt og mörgum þingmönnum þáverandi stjórnarandstöðu fannst þetta allt of lágt hlutfall. Við náðum þó á árunum 2006–2008 að fara með hlutfall nýframkvæmda á þetta svæði upp í um 20%. Okkur hér á þessu suðvesturhorni var byrjað að dreyma um að ná upp í 30%. Við erum ekki að biðja um „fifty/fifty“ skiptingu heldur að þetta hlutfall fari aðeins vaxandi.

Hvað kemur síðan á daginn? Nýjustu tölur sýna fram á að nýframkvæmdir til höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2009 og núna fyrir árið 2010, það sem af er árs, er hlutfallið 9,7%. Innan við 10% af nýframkvæmdum í samgöngumálum fara til höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna spyr ég: Er það þróun sem hugnast hæstv. samgönguráðherra? Vill samgönguráðherra, 10. þingmaður Suðvesturkjördæmis, samþykkja þá þróun að hlutfall nýframkvæmda í samgöngumálum sé komið niður fyrir 10% markið fyrir þetta svæði? Ég veit að hæstv. samgönguráðherra á hauk í horni innan ríkisstjórnar. Núverandi forsætisráðherra og þáverandi stjórnarandstöðuþingmaður sagði m.a. í þinginu að þetta væri algjörlega óþolandi staða, að hlutfall til nýframkvæmda væri einungis þetta — og þó vorum við að tala um 20%.

Þetta er fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra sem ég veit að hann mun svara hér á eftir: Finnst honum ásættanlegt hlutfall til nýframkvæmda að innan við 10% af nýframkvæmdum fari til höfuðborgarsvæðisins þar sem búa um 70% af landsmönnum?

Ég vil í öðru lagi spyrja hann um skoðanir hans til nokkurra framkvæmda, í fyrsta lagi breikkunar Vesturlandsvegar. Hana þarf að klára. Hvenær sér ráðherra það gerast?

Ég vil í þriðja lagi spyrja um gatnamót Vífilsstaðavegar og Hafnarfjarðarvegar. Í þau gatnamót þarf að fara sem allra fyrst, það vita allir, ekki bara Hafnfirðingar heldur líka Suðurnesjamenn, þeir sem búa úti á Álftanesi og víðar að það eru gatnamót sem þarf að ráðast í sem allra fyrst. Hvenær sér ráðherra það gerast og hvernig?

Við getum líka talað um Kjósarskarðsveg sem er vegur sem við þingmenn kjördæmisins höfum rætt um mjög lengi, hátt á annan áratug. Það þarf að setja á þann veg endanlegt slitlag, það er búið að gera ráð fyrir því lengi. Hvenær sér ráðherra þá framkvæmd gerast?

Síðan vil ég að sjálfsögðu tala um Arnarnesveg sem er löngu tímabær og löngu ákveðin framkvæmd. Það er búið að bjóða þá framkvæmd út, allt er tilbúið í hana. Hvenær sér ráðherra okkur takast að fara í þá framkvæmd? Ég vil sérstaklega benda ráðherra á að á suðvesturhorninu, auk Suðurnesjanna, er langmesta atvinnuleysið. Við erum að tala um atvinnuleysi á þessu svæði en ekki síður hitt að hér hefur verið mikið rætt um umferðaröryggi og að hér eru langmestu þungaflutningar á landinu. Þess vegna spyr ég aftur ráðherra: Hvernig ætlar hann að beita sér fyrir því að við sjáum loksins fram á einhverjar breytingar í þá veru að efla samgöngur (Forseti hringir.) á suðvesturhorninu?