139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

Landsvirkjun.

188. mál
[12:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott og gagnlegt að þingmenn séu á varðbergi og gæti að því að ekki fari neitt hér í gegn sem stríðir gegn stjórnarskránni. Sjálfsagt er að skoða það atriði sem hv. þingmaður nefnir í því sambandi. Ég hygg þó að hér sé ekki verið að veita heimild eins og hv. þingmaður óttaðist vegna þess að það er einfaldlega sagt að það þurfi samþykki ráðherrans til. Ráðherranum er ekki veitt nein heimild til að samþykkja hvað sem honum hentar, heldur sækir hæstv. fjármálaráðherra ýmist í fjárlögum eða í sérstökum frumvörpum til laga um einstakar ríkisábyrgðir eftir heimild Alþingis áður en hann gefur slíkt samþykki. Ég geri einfaldlega ráð fyrir því að sami háttur verði hafður á, en sjálfsagt er að fara vel yfir það.

Hitt er svo líka rétt hjá hv. þingmanni að það er nokkuð sérkennilegt fyrirkomulag, þetta sameignarfélag með sjálfum sér sem Landsvirkjun er auðvitað orðin hjá ríkinu eftir að Reykjavíkurborg og Akureyri eru ekki lengur aðilar. Ég tel að það hafi þó reynst ágætlega og að það sé mjög mikilvægt að fara ekki í að hlutafélagavæða það. Mér finnst leitt að heyra að svona skömmu eftir að farið var offari í einkavæðingu, bæði á sjávarauðlindinni og bönkunum í landinu, sem hefur leitt til alls þess ófarnaðar sem raun ber vitni í íslensku samfélagi, sé hv. þingmaður að tala fyrir einkavæðingu Landsvirkjunar. Ég held að það lýsi því ágætlega hversu lítinn hljómgrunn slík sjónarmið nýfrjálshyggju eiga orðið í stjórnmálum að hv. þingmaður er alveg einn um að tala fyrir því hér í þingsal.