139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[14:41]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þetta er 200. mál þessa þings á þskj. 217. Um er að ræða breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011. Þessum breytingum má í aðalatriðum skipta í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi eru sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, í öðru lagi hækkanir á krónutölusköttum í takt við verðlagsforsendur frumvarpsins, svo sem á bensíngjaldi, olíugjaldi, áfengisgjaldi o.fl. slíku, og í þriðja lagi hækkanir á ýmsum gjaldskrám hjá stofnunum ríkisins, bæði vegna hækkunar verðlags og aðhaldsaðgerða í ríkisrekstrinum almennt. Þá er einnig að finna tillögur að breytingum á barnabótum og vaxtabótum í þessu frumvarpi þó að þeir bótaflokkar falli vissulega undir útgjaldahliðina en vegna þess hversu samtvinnaðar þessar bætur eru tekjuskattskerfinu eru þær teknar hér með. Ég mun nú gera nánari grein fyrir hverjum flokki þessara breytinga fyrir sig.

Fyrst um sérstakar tekjuöflunaraðgerðir: Allt frá hausti 2008 hefur verkefni ríkisstjórnar verið að reyna að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum veruleika með það að markmiði að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Í skýrslu fjármálaráðherra sem lögð var fyrir Alþingi í júní 2009 var þetta verkefni útfært nánar sem áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum 2009–2013. Þar kemur skýrt fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni fela í sér hvort tveggja, niðurskurð ríkisútgjalda og hækkun á tekjum ríkissjóðs. Sú blandaða leið niðurskurðar og tekjuöflunar sem ríkisstjórnin hefur haft að leiðarljósi til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum er þó í stöðugri endurskoðun og tekur mið af þeim árangri sem hvor leið skilar á hverjum tíma. Þannig er reynt að lágmarka það tjón sem niðurskurður á samneyslu veldur hagkerfinu og einnig þau neikvæðu áhrif sem of víðtækar tekjuöflunaraðgerðir kunna að hafa á hagkerfið.

Þegar við afgreiðslu fjárlaga 2009 voru gerðar viðamiklar ráðstafanir, bæði á tekju- og gjaldahlið, og síðan aftur við afgreiðslu fjárlaga 2010. Mestur þungi þeirra var á árinu 2010 þó svo að nýjar tekjuöflunaraðgerðir fyrir það ár hafi orðið minni en reiknað var með við undirbúning frumvarps til fjárlaga fyrir það ár. Þessar aðgerðir hafa átt stóran þátt í að bæta stöðu ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið og eru þar með mikilvægur liður í þeim viðsnúningi sem að var stefnt. Með samþykkt fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011 hefst þriðja ár áætlunar stjórnvalda um jöfnuð í ríkisfjármálum. Áfram verður farin blönduð leið niðurskurðar og tekjuöflunar en í þessum áfanga verður þó þungi aðgerðanna að mestu á útgjaldahliðinni.

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að sérstakar aðgerðir á tekjuhlið í formi breytinga á einstökum tekjustofnum skili ríkissjóði 11 milljörðum kr. í viðbótartekjur á næsta ári. Lítils háttar breyting hefur átt sér stað á þeim áformum í þá veru að viðbótartekjur af vörugjaldi á áfengi og tóbak verða nú 700 millj. kr. lægri en reiknað er með í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps, þ.e. 600 millj. kr. í stað 1,3 milljarða kr. Sérstakar aðgerðir á tekjuhlið nema því nú 10,3 milljörðum kr. í stað 11 milljarða áður. Þær aðgerðir skiptast í nokkra tekjustofna með það að markmiði að hafa sem minnst áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra sem minna mega sín. Engar almennar breytingar eru fyrirhugaðar á helstu tekjustofnum ríkissjóðs, svo sem tekjuskatti einstaklinga, virðisaukaskatti eða tryggingagjaldi, heldur er fremur horft til skatta á fjármagn og eignir, enda ekki síst á þeim sviðum sem núverandi skattkerfi gengur skemur en algengt er í nágrannalöndunum.

Í fyrsta lagi er lagt til að skattur á fjármagnstekjur einstaklinga verði hækkaður úr 18% í 20% og eru tekjuáhrif þeirrar hækkunar áætluð 1,5 milljarðar kr. á árinu 2011. Með þeim breytingum sem gerðar voru á skattalögum á síðasta ári var dregið verulega úr mismun á skattlagningu fjármagnstekna annars vegar og launatekna og annarra tekna hins vegar. Enn er þó til staðar nokkur munur, en samkvæmt gildandi lögum er lægsta tekjuskattshlutfall að meðtöldu útsvari við staðgreiðslu launatekna samtals 37,22% en hið hæsta 46,12% samanborið við 18% fjármagnstekjuskatt. Hækkun fjármagnstekjuskatts í 20% mun því ekki íþyngja fjármagnstekjum umfram launatekjur, lífeyri og aðrar almennar tekjur. Það á eins við þótt tekið sé tillit til verðbótaþáttar vaxtatekna því að þegar breytingar á fjármagnstekjuskatti eru skoðaðar þarf að hafa í huga að vaxtatekjur undir ákveðnum mörkum eru undanþegnar skattlagningu.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila, svo sem hlutafélaga og einkahlutafélaga, verði hækkaður úr 18% í 20% og að tekjuskattur sameignar- og samlagsfélaga verði hækkaður úr 32,7% í 36%. Hækkun á tekjuskatti lögaðila kemur hins vegar aðeins að litlu leyti fram á árinu 2011 þar sem álagning hans fer alla jafna fram með árstöf. Hækkun skatthlutfallsins úr 18% í 20% ætti að skila ríkissjóði nálægt 2,5 milljörðum kr. á ári, þar af er talið að 500 millj. kr. skili sér á árinu 2011 en tekjuaukinn komi að fullu fram á árinu 2012.

Á sama hátt og enn er til staðar mismunur í skattlagningu launa og fjármagnstekna þeim síðarnefndu í hag er einnig til staðar mismunur á skattlagningu launatekna annars vegar og tekna af atvinnurekstri í hlutafélagaformi hins vegar, atvinnurekstrartekjunum í hag. Launatekjur bera sem fyrr segir 37–46% jaðarskatt, auk þess sem 8,65% tryggingagjald er lagt á launagreiðslur þannig að heildarjaðarskattlagning launa getur verið á bilinu 46–55%. Samanlagður skattur á hagnað félags og úthlutaðan arð er hins vegar í dag um 33%. Þessi mikli munur getur og hefur leitt til skattalegrar hagræðingar í formi tilfærslna á launatekjum yfir í rekstrarhagnað og arðgreiðslur hjá einkahlutafélögum sem endurspeglast m.a. í þeirri sprengingu sem orðið hefur í fjölda fyrirtækja á því félagaformi.

Þó svo að verulega hafi dregið úr mismun skattlagningar eftir tegund tekna með lagabreytingum á síðasta ári er unnt að draga frekar úr þessum mun án neikvæðra afleiðinga. Hækkun á skatthlutfalli fjármagnstekjuskatts einstaklinga og tekjuskatts lögaðila úr 18% í 20% er frekara skref í átt að minni mun. Með þeim breytingum verður samanlagður skattur á hagnað félags og arð eiganda samtals 36% sem er enn nokkru lægra en skattlagning á launatekjur og lægra en sambærilegar tölur fyrir önnur lönd. Þá verður fjármagnstekjuskattur og skattur á hagnað lögaðila enn lægri en í flestum öðrum löndum.

Í þriðja lagi er lagt til að hinn tímabundni auðlegðarskattur verði hækkaður. Þessi tekjuöflunarleið er m.a. valin í ljósi þess að eignamyndun og samþjöppun eignarhalds, einkum peningalegra eigna, hefur verið mikil á undanförnum árum, m.a. vegna þess munar sem hefur verið á skattlagningu fjármagnstekna og annarra tegunda tekna. Samkvæmt upplýsingum úr álagningargögnum er sterkt samhengi milli tekna þeirra sem skatturinn leggst á og nettóeignar þeirra eins og búast mátti við. Má því líta á eignarskatt með svo háum fríeignarmörkum sem ígildi stighækkandi fjármagnstekjuskatts.

Áætlað er að breytingin skili 1,5 milljörðum kr. í viðbótartekjur með hækkun á skatthlutfallinu úr 1,25% í 1,5% og lækkun fríeignarmarka úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. á nettóeign einstaklinga og úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr. hjá hjónum. Heildartekjur af auðlegðarskatti, verði frumvarpið að lögum, eru áætlaðar 5,2 milljarðar kr. á árinu 2011.

Í fjórða lagi er lagt til að erfðafjárskattur verði hækkaður úr 5% í 10%. Samhliða er lagt til að skattfrelsismörk skattsins á hvert dánarbú hækki úr 1 millj. kr. í 1,5 millj. kr. Reiknað er með að þessar breytingar skili ríkissjóði 1 milljarði kr. í viðbótartekjur á árinu 2011 og eru heildartekjur af skattinum taldar verða 2.350 millj. kr. á því ári. Í skattalegu tilliti er almennt litið á erfðafjárskatt sem ígildi tekjuskattlagningar. Mikill munur á hlutfalli hans og almennu tekjuskattshlutfalli gæti því ýtt undir skattsniðgöngu, ekki síst í tilviki fyrirframgreiðslu. Erfðafjárskattur er lágur hérlendis miðað við flest nágrannalönd okkar og er maki eða sambúðaraðili undanþeginn skattinum.

Í fimmta lagi er lagt til að tóbaksgjald verði hækkað um 7%, þ.e. nokkuð umfram almennar verðlagsforsendur. Jafnframt er lagt til að tekið verði upp sérstakt áfengisgjald og tóbaksgjald á þessar vörur í tollfrjálsum komuverslunum í tengslum við millilandaflug hér á landi. Frá árinu 1995 voru í gildi reglur sem kváðu á um hlutfallslegt gjald á áfengi sem selt var í tollfrjálsum verslunum hér á landi en gjaldtaka þessi var afnumin árið 2000.

Sala á þessum vörum er gjaldfrjáls í dag en í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp sérstakt 10% gjald af almennu áfengisgjaldi sem lagt er á áfengi sem selt er innan lands og sérstakt 20% gjald af almennu tóbaksgjaldi. Gjaldið verður hins vegar ekki lagt á áfengi eða tóbak sem selt er í verslunum við brottför úr landi. Gert er ráð fyrir því að hækkun á tóbaksgjaldi og upptaka á sérstöku áfengis- og tóbaksgjaldi í komuverslunum til landsins auki tekjur ríkissjóðs um 300 millj. kr. Mikilvægur þáttur í viðbótartekjuöflun ríkissjóðs frá því eftir hrun haustið 2008 hefur verið rúmlega 40% hækkun á vörugjaldi á áfengi og tóbak sem selt er innan lands. Þó svo að sú hækkun hafi að einhverju marki dregið úr innlendri sölu á þessum vöruflokkum, eins og búast mátti við, hafa vörugjaldstekjurnar aukist verulega. Með tilliti til þess hlutverks þessara vörugjalda, að draga úr neyslu um leið og aflað er tekna fyrir ríkissjóð, má draga í efa réttmæti þess fyrirkomulags að sala í íslenskum fríhöfnum sé með öllu skattfrjáls.

Ég vil reyndar taka það sérstaklega fram, frú forseti, í þessu samhengi að það er að finna tvær prentvillur á bls. 3 og 4 í frumvarpinu (Gripið fram í: Nohh.) þar sem um þetta er fjallað sem ég bið hv. þingmenn síðan að taka til athugunar. Þar segir í 11. gr. að tekið verði upp sérstakt 15% gjald af almennu reiknuðu áfengisgjaldi í tollfrjálsum komuverslunum eins og það er lagt á áfengi sem selt er í landinu en þar á að sjálfsögðu að standa 10%, samanber það sem ég sagði áðan. Þá segir í 13. gr. frumvarpsins að tekið verði upp sérstakt 40% gjald af almennu reiknuðu tóbaksgjaldi í tollfrjálsum komuverslunum eins og það er lagt á tóbaksvörur sem seldar eru í landinu en þar á að sjálfsögðu að standa 20% þannig að ég vek athygli manna á þeim villum sem þarna hafa slæðst inn en fjárhæðirnar eins og þær eru reiknaðar og þær tekjuforsendur sem gengið er út frá miðast við 10% annars vegar og 20% hins vegar.

Þá var á síðasta ári tekið upp kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti, en með því var stigið ákveðið skref í nýrri skattheimtu á sviði umhverfis- og auðlindaskatta. Kolefnisgjald er ákvarðað með hliðsjón af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB og var fjárhæð gjaldsins fyrir árið 2010 u.þ.b. helmingur af verðinu eins og það stóð þegar lögin voru samþykkt í lok árs 2009. Verð á losunarheimildum hefur hins vegar hækkað nokkuð að undanförnu, en á móti vegur heldur sterkari króna gagnvart evru. Jafnframt er talið rétt að stíga viðbótarskref varðandi þessa gjaldtöku og því er í sjötta lagi lagt til að kolefnisgjaldið sem hlutfall af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB hækki úr 50% í 75%. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessum breytingum eru áætlaðar um 1 milljarður kr. Gjaldið er misjafnt eftir tegundum eldsneytis í samræmi við losun í hverju tilviki, þ.e. á bilinu 2,60–3,10 kr. á hvern lítra en verður eftir hækkunina 3,80–4,60 kr. á hvern lítra.

Samkvæmt 11. og 12. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða geta eigendur séreignarsparnaðar ekki hafið úttekt hans fyrr en þeir hafa náð 60 ára aldri. Í byrjun árs 2009 var hins vegar lögfest ákvæði til bráðabirgða við lögin sem heimilaði úttekt hans allt að 1 millj. kr. og síðan aftur undir lok ársins um 1,5 millj. kr. til viðbótar. Samkvæmt gildandi lögum geta því eigendur séreignarsparnaðar sótt um að taka út allt að 2,5 millj. kr. fram til 1. apríl á næsta ári og fá hann greiddan út á næstu 12–24 mánuðum. Rökin fyrir þessari tímabundnu ráðstöfun var að milda með þessum hætti þann samdrátt ráðstöfunartekna sem ýmsar fjölskyldur hafa orðið fyrir, m.a. í kjölfar atvinnumissis. Fram til þessa hafa rúmlega 50 þús. eigendur séreignarsparnaðar sótt um þessa úttekt, samtals 43,2 milljarða kr. Meðalúttekt fyrir skatt er samkvæmt því tæplega 900 þús. kr. á rétthafa.

Í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár er reiknað með frekari heimildum til úttektar á séreignarsparnaði sem skilað gætu ríkissjóði nálægt 3 milljörðum kr. í tekjuskatt. Það þýðir samkvæmt lauslegu mati að um 10 milljarðar kr. verði greiddir út á grundvelli nýrrar heimildar til viðbótar þeim 43 milljörðum kr. sem þegar hafa verið greiddir út. Í ljósi þeirra áforma er lagt til í frumvarpinu að hverjum rétthafa verði heimilt að taka út allt að 5 millj. kr. af séreignarsparnaði sínum sem greiddar verði út á næstu 12 mánuðum. Umsóknarfrestur er sá sami og í gildandi bráðabirgðaákvæði, það er til 1. apríl 2011. Fyrir þá einstaklinga sem sækja um 5 millj. kr. útgreiðslu nú og hafa ekki nýtt hana áður nemur mánaðarleg útgreiðsla að frádregnum tekjuskatti og útsvari nálægt 250 þús. kr. næstu 12 mánuði. Þá er miðað við að staðgreiðsluhlutfall á útgreiðslu sé 40,12%. Í tilviki hjóna væri greiðslan tvöföld, 500 þús. kr. ef bæði eiga rétt á útgreiðslu og hafa ekki nýtt hana áður. Ljóst er að opnun slíkrar heimildar ætti sannanlega að geta nýst þeim sem búa við óhagstæð vaxtakjör vegna skammtímalánsfjármögnunar af margvíslegum ástæðum. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að séreignarsparnaðurinn er tiltölulega nýtt sparnaðarform og nær hjá flestum einungis aftur til ársins 1998. Þar af leiðandi er meðalfjárhæð séreignarsparnaðar á hvern einstakling mun lægri en 5 millj. kr., eða nær því að vera um 3 millj. kr.

Ég vík þá næst að breytingum á barnabótum og vaxtabótum. Í frumvarpinu er enn fremur að finna tillögur að breytingum á barnabótum og vaxtabótum þó að þeir bótaflokkar falli undir útgjaldahliðina eins og áður sagði, en vegna þess hversu samtvinnaðar þessar bætur eru tekjuskattskerfinu er um það fjallað hér. Samkvæmt forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011 er reiknað með samtals 3,5 milljarða kr. sparnaði í greiðslum barnabóta og vaxtabóta.

Í fyrsta lagi var samkvæmt fjárlögum ársins 2010 reiknað með að greiddur yrði út 10,1 milljarður kr. í barnabætur á þessu ári, en eftir endanlega ákvörðun þeirra við álagningu opinberra gjalda 1. ágúst sl. er ljóst að þær verða heldur hærri, eða nálægt 10,5 milljarðar kr. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2011 er reiknað með nokkrum sparnaði á þessum útgjaldalið, þ.e. 1.300 millj. kr. frá áætlaðri útkomu á yfirstandandi ári. Það þýðir að heildargreiðslur barnabóta á árinu 2011 verði 9,2 milljarðar kr. Til að ná þessu markmiði er í þessu frumvarpi lagt til að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar af tekjum eins og aðrar bætur og skerðingarhlutfallið verði 3%. Enn fremur verði tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns hækkað úr 2% í 3%. Engin breyting verður hins vegar á skerðingarhlutfallinu þegar börnin eru fleiri. Þetta er gert til að lækkun bótanna komi fremur fram hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Jafnframt er lagt til að skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum verði óheimil út árið 2011.

Í öðru lagi er í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011 gerð tillaga um 9.800 millj. kr. fjárheimild til greiðslu vaxtabóta á næsta ári sem er 270 millj. kr. lægri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2010. Áætlað er að þessi útgjöld verði að óbreyttu um 1,9 milljörðum kr. hærri á næsta ári en reiknað var með í fjárlögum 2010, bæði vegna vanmats í áætluninni og vegna innbyggðrar aukningar í bótakerfinu milli ára. Til þess að ná settum markmiðum um að lækkun þessara útgjalda bitni síður á hinum tekjulægri er í frumvarpinu lagt til að gerð verði sú breyting á útreikningi vaxtabóta samkvæmt gildandi lögum að tekjutenging þeirra verði 7% í stað 6% nú. Því til viðbótar er lagt til að þannig ákvarðaðar vaxtabætur verði síðan skertar um 8% hjá öllum bótaþegum til að unnt verði að ná settu markmiði um á að giska 2,2 milljarða kr. sparnað á næsta ári.

Í þessu samhengi, frú forseti, er mikilvægt að minna á að ein af ráðstöfunum ríkisstjórnar á öndverðu ári 2009 var að hækka verulega fjárveitingu til greiðslu vaxtabóta, þ.e. yfir 30%. Sú hækkun stóð áfram í fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta var bein aðgerð til þess að aðstoða skuldsett, tekjulág heimili til að takast á við þann vanda sem þar er við að glíma og hækkandi kostnað vegna lána. Rökin fyrir því að nú ættu að vera forsendur til þess að draga úr þessum stuðningi aftur og færa hann þó ekki alla leið til baka, niður í það horf sem hann var fyrir árið 2009, voru m.a. þau að þá höfðu menn vonast til að hraðar hefði gengið að vinna úr skuldamálum heimila, að endurskipulagning og í einhverjum tilvikum niðurfærsla skulda hefði létt greiðslubyrði og að lægri fjármunir mundu þar af leiðandi nýtast til þess að halda uppi viðunandi stuðningi við skuldugar fjölskyldur vegna húsnæðisöflunar.

Nú standa hins vegar yfir, eins og allir vita, miklar viðræður milli stjórnvalda og ýmissa aðila um það hvaða leiðir séu færar til að ná betri tökum á þessum skuldaúrvinnslumálum, bæði gagnvart fyrirtækjum og ekki síður heimilum. Ein þeirra leiða sem þar er vissulega rædd og hefur verið til skoðunar, samanber þá skýrslu sem kynnt var á dögunum, er að beita vaxtabótakerfinu og þá kannski í breyttu formi þannig að það gagnist sem allra best þeim sem eru í mestum skuldavanda. Þar liggja ekki fyrir endanlegar niðurstöður en augljóst er að þær kynnu að leiða til breytinga á þessum ákvæðum frumvarpsins ef slíkar breyttar útfærslur í sambandi við vaxtabætur verða hluti af heildstæðari pakka í þessum efnum.

Þá vík ég næst að hækkun á svonefndum krónutölusköttum. Almennt er gert ráð fyrir því að slíkir skattar taki 4% verðlagsuppfærslu og er það í samræmi við meginverðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þetta snýr að bensíngjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi, almennu vörugjaldi á áfengi o.s.frv. Markmiðið er ósköp einfaldlega að fjárhæðir þessara skatta haldi raungildi sínu frá fyrra ári en hér er um að ræða vörugjöld sem ákvörðuð eru sem ákveðin fjárhæð á magneiningu.

Ég held að við eigum ekki að láta þau mistök endurtaka sig að trassa það að láta slíka hluti fylgja verðlagi ár frá ári þannig að ekki þurfi að koma til þess að taka þurfi stór stökk í slíkum hækkunum þegar menn hafa kannski látið einhver ár líða án þess að uppfæra þetta í takt við verðlag.

Gert er ráð fyrir því að almennt bensíngjald, sem í dag er 22,94 kr. á hvern lítra, hækki í 23,86 kr. og sérstakt bensíngjald á 95 oktana bensín hækki úr 37,07 kr. á hvern lítra í 38,55 kr., samtals um 2,40 kr. á hvern lítra. Samsvarandi hækkun á olíugjaldi er 2,11 kr. á hvern lítra. Gert er ráð fyrir því að þessar hækkanir skili ríkissjóði aukalega 750 millj. kr. sem þýðir að þessi tekjustofn heldur sínum hlut hvað verðlag snertir. Hækkun almenns og sérstaks kílómetragjalds er talin muni skila ríkissjóði aukalega um 30 millj. kr. og áætlað er að hækkun á vörugjöldum á áfengi gefi um og yfir 400 millj. kr. Reyndar er til skoðunar að breyta skattlagningu áfengis, einkum bjórs, þannig að meira tillit verði tekið til styrkleika sem gæti hugsanlega að hluta komið í staðinn fyrir umrædda 4% hækkun. Útfærsla á þeirri tillögu er hins vegar ekki alveg fullbúin og því er hana ekki að finna í þessu frumvarpi en það kann að koma fram síðar.

Þá eru að lokum lagðar til tillögur að gjaldskrárhækkunum ýmissa stofnana og fyrirtækja ríkisins í samræmi við verðlagsforsendur frumvarpsins. Í fyrsta lagi má nefna 4% hækkun á útvarpsgjaldi, þ.e. úr 17.200 kr. í 17.900 kr., sem skili um 140 millj. kr. í auknum tekjum, í öðru lagi 4% hækkun vitagjalds, sem skili 10 millj. kr. tekjuauka, í þriðja lagi 4% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, sem skili um 60 millj. kr. í viðbótartekjur.

Einnig er lagt til að sóknargjöld verði föst krónutala, lækki úr 767 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 698 kr. fyrir árið 2011. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á árinu 2011 lækki um 183 millj. kr. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs lækki um rúmar 53 millj. kr. vegna Jöfnunarsjóðs sókna en framlag í sjóðinn reiknast sem 18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld og hins vegar vegna Kirkjumálasjóðs sem reiknast á sama hátt sem 11,3% af sóknargjöldum. Þessu tengt er tillaga um að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2011 gagnvart þjóðkirkjunni, samkvæmt sérstöku samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar, muni lækka um 100 millj. kr. Með sama hætti er lagt til að framlag ríkissjóðs til Kristnisjóðs muni skerðast um 5,9 millj. kr. á árinu.

Að lokum er tillaga um að grunnfjárhæðir almannatrygginga verði óbreyttar á árinu 2011, þ.e. þær sömu og nú eru í gildi.

Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni hvaða áhrif framangreindar aðgerðir hafa á einstakar efnahagsstærðir eins og ráðstöfunartekjur heimila, verðlag eða kaupmátt ráðstöfunartekna sem aftur hefur áhrif á framvindu efnahagsmála. Ljóst er að viðbótartekjuöflun í formi fjármagnstekjuskatts, erfðafjárskatts, auðlegðarskatts, bifreiðagjalds og lægri greiðslur barnabóta og vaxtabóta hafa bein áhrif til lækkunar á ráðstöfunartekjur, um nálægt 8,7 milljarða kr. Á móti vega auknar útgreiðslur séreignarsparnaðar sem áætlað er að nemi nálægt 6 milljörðum kr. eftir greiðslu tekjuskatts og útsvars. Samanlögð áhrif þessara aðgerða á ráðstöfunartekjur heimilanna eru samkvæmt því mati lítillega neikvæð, eða sem nemur 2,5–3 milljörðum kr. til lækkunar.

Áhrif annarra aðgerða í frumvarpinu ættu fyrst og fremst að koma fram í verðlagi, þ.e. tekjuskattur lögaðila, áfengis- og tóbaksgjald, kolefnisgjald, krónutöluskattar og gjaldskrár. Lauslegt mat sýnir að þau áhrif gætu verið kringum 0,2% til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Rétt er að taka fram að vörugjald á sölu áfengis og tóbaks í fríhöfnum hefur ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.

Gangi þetta mat eftir væru samanlögð áhrif af tillögum frumvarpsins nálægt 0,5% til lækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna.

Virðulegi forseti. Ég legg að þessu sögðu til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari. Þetta er fyrra frumvarpið af tveimur sem felur í sér allviðamiklar ráðstafanir sem tengjast annars vegar sérstaklega tekjuöflunarforsendum fjárlagafrumvarpsins og hins vegar ýmsar tæknilegar lagfæringar og breytingar sem munu koma í öðrum sambærilegum bandormi og vonandi tekst að leggja það fram hér á þingi í næstu viku. Ættu þá að vera að mestu leyti komin fram þau frumvörp sem tengjast ráðstöfunum á sviði ríkisfjármála og afgreiðslu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2011, en það er eins og kunnugt er mikilvægt viðfangsefni sem Alþingi fær nú og hefur með höndum, að koma þeim stóra pakka öllum saman og er ekki alveg auðvelt við okkar erfiðu aðstæður en engu að síður nauðsynlegt og óumflýjanlegt að gera þær ráðstafanir sem við getum og teljum okkur fært að gera til þess að ná tökum á ríkisfjármálunum, draga úr hallarekstri og skuldasöfnun og uppsöfnun vaxtakostnaðar. Þetta er nú viðfangsefni sem glímt er við um víðan heim, a.m.k. mjög víða í nálægum löndum, og satt best að segja svo komið að staða Íslands í þeim efnum telst kannski ekki sú erfiðasta, svona miðað við nýjustu fréttir víða að. Við höfum sett okkur býsna metnaðarfulla áætlun í þeim efnum að ná tökum á hallarekstrinum sem hér myndaðist með hruninu í markvissum áföngum á árabilinu 2009–2013 þannig að frumjöfnuði verði náð, eða a.m.k. jafnvægi á næsta ári og heildarjöfnuði á árinu 2013. Ég veit að það þarf ekki að fara um það mörgum orðum gagnvart hv. alþingismönnum hversu mikilvægt þetta viðfangsefni er, okkar sjálfra vegna og framtíðarinnar, að ná sem fyrst aftur sjálfbærum traustum forsendum undir rekstur hins opinbera í landinu, gildir að sjálfsögðu líka um sveitarfélögin sem mörg hver eiga í umtalsverðum erfiðleikum við að koma saman fjárhagsáætlunum fyrir komandi ár. Á spýtunni hangir margt í senn, líka trúverðugleiki og traust sem með því skapast ef menn sjá að þeir eru að ná tökum á ástandinu og það horfir til betri vegar.

Skuldasöfnun margra ríkja vegna efnahagsþrenginganna er mjög mikið áhyggjuefni og satt best að segja alls ekki útséð um það enn hvernig ýmsu mun reiða af í þeim efnum. Í það heila tekið hefur staða Íslands þó farið batnandi og við erum fyrir alllöngu síðan horfin út af öllum listum þar sem menn eru með getgátur eða spár um að ríkið muni ekki ráða við skuldbindingar sínar og komast í þrot. Áhættuálag á Ísland og almennt umræða um Ísland hefur farið batnandi að undanförnu, m.a. vegna þess að þrátt fyrir allt hefur náðst talsverður árangur í að takast á við vandann sem hér er uppi. Það er óumdeilt, við höfum fengið jákvæðar umsagnir frá aðilum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni fyrir þó þann árangur sem hér hefur náðst, ekki síst á sviði ríkisfjármála, enda erum við komin og verðum komin með afgreiðslu fjárlagafrumvarps sem í grófum dráttum verður innan þeirra marka sem hér er lagt upp með, mjög langa leið frá 13% halla af vergri landsframleiðslu á árinu 2008 niður í undir 9% árið 2009, niður fyrir 5% á þessu ári og ef við náum því fram að heildarhallinn fari inn fyrir mörkin 2,5–3% á árinu 2011 er það auðvitað gríðarlega mikill árangur frá þeirri stöðu sem við lögðum upp með og eins og árið 2008 kom út, samanber ríkisreikning fyrir það ár.

Á margan hátt er Ísland þá komið mun lengra í glímunni við þennan vanda ríkisfjármálanna en ýmis nálæg lönd eins og við sjáum best á því að hallinn á ríkissjóði Grikklands var 15,2% í fyrra, 14,4% á Írlandi, Bretar horfa fram á um 13% halla af ríkissjóði í ár af vergri landsframleiðslu og staðan er þung víða annars staðar þannig að þrátt fyrir allt held ég að takist okkur í grófum dráttum að fylgja þessari áætlun eftir getum við verið sæmilega sátt við þann árangur sem þannig er að nást.

Hann er að sjálfsögðu ekki án fórna, hann er ekki sársaukalaus, það dettur engum manni í hug að halda því fram eins og umræða undangenginna vikna ber skýrt með sér. Við metum að sjálfsögðu þjóðhagsforsendurnar eins og þær koma til með að liggja fyrir nú þegar ný þjóðhagsspá verður komin fram og hvaða svigrúm er til tilfærslna og aðgerða, en í aðalatriðum held ég að við þurfum að halda okkur við þá áætlun sem lagt var upp með þannig að við förum ekki út af sporinu í þeim efnum, að ná sem allra fyrst sjálfbærni í okkar ríkisbúskap. Hver króna sem fer frá því að renna til reksturs í velferðarmálunum og í að borga vexti er dýr og ég held að það hlutfall sem við sitjum nú þegar uppi með, að kannski um 15–17% af heildartekjum ríkisins fari í greiðslu vaxtakostnaðar, sé þegar orðið ærið nóg. Það markmið að stöðva skuldasöfnunina tiltölulega hratt úr þessu er gríðarlega mikilvægt og ég veit að hv. þingmenn hafa allir skilning á því.

Ég óska svo eftir góðu samstarfi við hv. þingnefnd, efnahags- og skattanefnd, sem fær ærin verkefni með frumvarpi þessu og fleirum sem ásamt því eru á leiðinni til hennar.