139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[15:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skiptir að sjálfsögðu máli hver stærðargráða fráviksins verður. Þær tölur sem koma inn núna á þessum haustmánuðum skipta máli og freistandi er að bíða alveg fram í desembermánuð eftir því að sjá uppgjör fyrir nóvember. Það er ýmislegt sem bendir til þess að heldur meiri umsvif séu í hagkerfinu á síðari árshelmingnum en augljóslega var á fyrri árshelmingnum og þar með að viðsnúningurinn sé þegar orðinn að einhverju leyti í hagkerfinu. Allar spár ganga út á hagvöxt á næsta ári, bara mismunandi mikinn, og auðvitað hefðum við helst viljað sjá hann sem ríflegastan. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé alveg ástæða til að gera sér vissar vonir um að við eigum meira inni í þeim efnum en spárnar gera ráð fyrir. Reynslan hefur oft sýnt að þegar viðsnúningurinn verður kemur mönnum á óvart hvað hann verður hraður. Bara vísbendingar eins og þær hversu mjög ferðalög Íslendinga hafa aukist á síðustu mánuðum benda til þess að komin sé meiri hreyfing á hlutina. Það er hægt að nota ýmsa fleiri (Forseti hringir.) hagmælikvarða en hina viðurkenndu opinberu, t.d. að taka 10 leigubíla og spyrja þá hvernig gangi (Gripið fram í.) og svona. Það er ekki svo dýrt, það er ekkert verri úttekt (Forseti hringir.) en hver önnur. Það er oft hægt að skynja á slíkum stöðum hvenær hlutirnir eru að komast á hreyfingu. Ég er bærilega bjartsýnn þó að vissulega sé maður með hnút í maganum yfir því hvernig (Forseti hringir.) endanlegar forsendur leggjast áður en við lokum frumvarpinu.