139. löggjafarþing — 31. fundur,  18. nóv. 2010.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

200. mál
[16:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú gæti þetta auðvitað allt saman átt við ef þetta væri á dagskrá. Þær aðgerðir sem eru á dagskrá eru að þriðjungi til skattlagning á séreignarsparnaði sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir. Það eru lítils háttar skattar á fjármálastarfsemina. Það er nokkur breikkun á auðlegðarskattinum svonefnda. Það er lítils háttar hækkun á fjármagnstekjuskatti fjármagnseigendanna í samfélaginu og arði fyrirtækja. Síðan eru verðlagshækkanir á ýmsum gjöldum um 4%. Að mjög óverulegu leyti eru þessar aðgerðir eitthvað sem kemur á heimilin því að tekjuskatturinn er ekki hreyfður og virðisaukaskatturinn er ekki hreyfður. Þannig er eftir fremsta megni verið að hlífa heimilunum og það er auðvitað alveg í samræmi við þær áherslur sem hv. þingmaður var að leggja.

Ég held að það sé alveg rétt og við séum öll sammála um að það sem skiptir máli er að koma hjólunum í gang. Þess vegna er auðvitað gleðiefni að spárnar eru um það að hér náist upp einhver hagvöxtur á næsta ári, vonandi sem allra mestur vegna þess að við þurfum sannarlega á því að halda. Ég held að það sé að takast hraðar og áætlanir í ríkisfjármálum að ganga betur eftir en jafnvel bjartsýnustu menn þorðu að vona, enda sýnir það sig að hrakspár Sjálfstæðisflokksins frá því í síðustu fjárlagaumræðu, um það að tekjustofnarnir mundu allir gefa eftir, hafa ekki gengið eftir. Hins vegar er alveg ljóst að tekjuskatturinn hefur ekki skilað sér eins vel vegna þess að samdráttur í vinnu í samfélaginu hefur orðið meiri. En t.d. neysluskattarnir sem þeir höfðu miklar hrakspár um, fjármagnstekjuskatturinn og skatturinn á auðlegðina, hefur allt saman (Forseti hringir.) gengið ágætlega vel eftir.