139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ályktun flokksráðsfundar VG um aðildarstyrki ESB.

[15:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég skal með ánægju fara yfir niðurstöður flokksráðsfundar okkar. Ég á þá inni greiðann hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni þegar Sjálfstæðisflokkurinn heldur næst fund, að hann útskýri fyrir mér hvað í niðurstöðunni var þar fólgið. Eins og í fundarályktun okkar kemur fram er skilningur okkar — og ég hef fengið hann staðfestan alls staðar þar sem ég hef eftir því leitað — að við þurfum ekki að gera fyrir fram breytingar á lögum okkar eða stofnanakerfi. Hins vegar þurfum við að vera með tilbúnar áætlanir um það, við þurfum að vera búin að bera saman löggjöf og það þarf að liggja skýrt fyrir hvar aðlögunin kallar þá á breytingar og hvar ekki en það er nægjanlegt að hrinda því í framkvæmd þegar eða ef þjóðin geldur jáyrði við því að fara þarna inn.

Ísland er EES-ríki og að 85% til er löggjöfin samræmd þannig að staða Íslands að þessu leyti er algerlega ósambærileg t.d. þeim Austur-Evrópuríkjum sem komu inn við stækkunina þá og þeirri aðferðafræði sem mótaðist í kjölfar þess og tók mið af því að ríki með allt annað fyrirkomulag og allt aðra stjórnsýslu þurftu auðvitað að gera viðamiklar breytingar áður en það varð trúverðugt að þau gætu orðið aðilar. Það á ekki við um Ísland nema í mjög afmörkuðum þáttum, fyrst og fremst á þeim sviðum sem standa utan EES-samningsins. Ég bið menn að hafa þetta í huga þegar þeir bera saman stöðu Íslands og þeirra ríkja sem komið hafa inn í stækkun á undangengnum árum.

Þetta er okkar skilningur og þar af leiðandi teljum við okkur geta staðið á því og haft fyrir því fullvissu að ekki þurfi að verða um að ræða neina fyrir fram aðlögun að þessu leyti en áætlanirnar þar um þurfa að vera tilbúnar.

Varðandi styrkina liggur það í hlutarins eðli að það er okkur algerlega í sjálfsvald sett hvort og þá hvenær og hvernig við tökum við þeim eða til hvaða verkefna þannig að það á ekki að vera (Forseti hringir.) neitt vandamál að við mótum áherslur okkar í þeim efnum.