139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

ný Vestmannaeyjaferja.

173. mál
[17:45]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda, og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég sakna þess virkilega að formaður stýrihópsins skuli ekki vera hér til að taka þátt í umræðunni og sérstaklega þegar upplýsingar koma fram í umræðunni um að það sé bara búið að skipa formann þessa stýrihóps en ekki aðra fulltrúa. Ég held að ég geti hér með örugglega boðið fram krafta þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni, við værum öll mjög viljug til að taka sæti í þessum stýrihópi.

Af því að nú eru í gangi ýmsir samningar eða viðleitni til að fara í einkaframkvæmdir á vegum mundi ég gjarnan vilja benda á að sama hugmynd gæti komið til greina varðandi nýjan Herjólf. Það er alveg á hreinu að til að hægt sé að láta það ganga að halda Landeyjahöfn opinni þurfum við að hafa skip sem passar fyrir höfnina. Núverandi skip er of stórt. Það tekur á sig of mikinn vind og það er áhyggjuefni (Forseti hringir.) að það skuli vera þannig að maður reikni nánast með því að þarna geti orðið slys. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að við reynum að halda okkur við það að stefna að því að það komi nýtt skip í kringum 2013/2014.