139. löggjafarþing — 32. fundur,  22. nóv. 2010.

starfsemi og rekstur náttúrustofa.

182. mál
[18:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu og tek undir orð fyrirspyrjanda um að ekki sé mjög frjótt að togast á um prósentutölur en hitt er annað að munurinn skýrist fyrst og fremst af því að umtalsverður hluti af framlagi ríkisins til náttúrustofa hefur komið í fjárlögin eftir umfjöllun Alþingis. Þannig hefur það verið. Við þurfum því að bera saman sambærilegar tölur milli ára.

Ég vil sérstaklega taka undir þann vilja þingmannsins sem kom fram. Að sjálfsögðu mun ég styðja viðleitni fjárlaganefndar og Alþingis alls í þágu umhverfismála og náttúruvísinda í landinu, skárra væri það nú. Fuglavöktunin er gríðarlega mikilvægt og gott verkefni sem er vel þess virði að halda á lofti hér eftir sem hingað til.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi gildi náttúrustofunnar í Kópavogi og þeirrar góðu vinnu sem þar hefur í raun og veru verið unnin við ótrúlega þröngan kost að mörgu leyti og lítinn stuðning og lítinn skilning af hálfu ríkisins gegnum tíðina. Það er eitt af því sem þyrfti að taka til skoðunar þegar landið fer að rísa ögn meir.

Varðandi ábendingu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um aukin verkefni náttúrustofanna þá hef ég talað fyrir því og gerði það m.a. þegar við ræddum framkvæmd náttúruverndaráætlunar og samstarf við sveitarfélögin og útfærslu náttúruverndaráætlunar og framkvæmd hennar. Þá ræddi ég sérstaklega mögulega aukna aðkomu náttúrustofanna. Ég tel einboðið að sá styrkur sem kemur beinlínis fram í návíginu við heimamenn hafi sannað gildi sitt mjög víða og ekki síst einmitt á heimaslóðum þingmannsins hjá Náttúrustofu Vesturlands.