139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

fjárhagsleg staða háskólanema.

[14:56]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessar umræður hér í dag. Hér hafa komið fram afar margir góðir punktar sem við munum þróa áfram í frekari vinnu.

Þegar við ræðum um fjárhagslega stöðu námsmanna getum við ekki annað en hugsað til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN eins og við köllum hann svo gjarnan, sem er tæki samfélagsins til að greiða götu fólks til menntunar og jafna aðstöðu til fjölbreytts náms. Það er því miður svo að LÍN, líkt og margar aðrar stofnanir sem þó hafa mikilvægu hlutverki að gegna, hefur ekki ótakmarkaðan aðgang að fjármagni þessa dagana en hér hefur þó komið fram að þrátt fyrir allt var grunnframfærsla námsmanna hækkuð um 20% í fyrra, sem er töluvert. Eftir þá breytingu er grunnframfærsla einstaklings í fullu námi tæplega 121 þús. kr. og til viðbótar má hann afla sér 750 þús. kr. á ári án þess að það skerði námslánið. Eftir það fara tekjurnar að skerða námslánið. Þar fyrir utan getur komið viðbótarlán vegna bókakaupa, barna eða meðlagsgreiðslna, lán vegna ferða nemenda sem eru að fara utan í nám o.s.frv. Þannig getur einstætt foreldri með þrjú börn haft 750 þús. kr. í tekjur yfir árið og verið með tæpar 270 þús. kr. á mánuði í lán. Hvort þetta er nægileg hækkun, sem er náttúrlega spurningin sem liggur undir, er allt önnur spurning. Þess vegna finnst mér þessi umræða afar brýn og ég þakka málshefjanda og sérstaklega námsmannahreyfingunum sem einhverjir fulltrúar eru fyrir hérna í dag fyrir að halda spurningunni lifandi í umræðunni og vera aðhald jafnt sem stuðningur innan kerfisins. Þessi vinna er farin af stað hjá LÍN þar sem starfshópur fjallar um þá spurningu hvað sé eðlilegt framfærsluviðmið. Þar eiga stúdentar, (Forseti hringir.) stjórnvöld og starfsmenn og meiri hluti stjórnar LÍN aðkomu. Ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr því.