139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

landsdómur.

247. mál
[17:18]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ríður á að menn séu nákvæmir í orðalagi og ég ætla ekki að láta það henda mig að fara á nokkurn hátt rangt með, a.m.k. ekki samkvæmt minni bestu samvisku. Ég gat um það áðan að orðalag eða einhver grein hefði verið borin undir saksóknara, eitthvert orðalag í einni grein, en nú heitir það í meðförum hv. alþingismanns að viðkomandi hafi komið að samningu frumvarpsins. Svo var ekki. (SKK: Undirbúningi þess.) (Gripið fram í.) Svo var ekki, en ég velti fyrir mér hvort alþingismenn sjái það sem sitt hlutverk að gera tilurð þessa máls sérstaklega tortryggilega. (Gripið fram í.) Er ekki hlutverk þeirra að taka málefnalega á málinu? Það er í valdi Alþingis (Gripið fram í.) að breyta þessu frumvarpi ef Alþingi vill gera það. Það kallar væntanlega fyrir sig alla þá sérfræðinga sem það vill, í nefndina, til að málið fái rækilega og góða skoðun. Það hefur verið staðið fullkomlega eðlilega að þessu máli. (Forseti hringir.) Við höfum fengið óskir um að gera breytingar á landsdómslögum. Ég hef sannfærst um að það þurfi að gera, þetta séu eðlilegar og málefnalegar (Forseti hringir.) ástæður, og við höfum unnið þetta frumvarp í samræmi við það. (Gripið fram í.)