139. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2010.

vörugjald af ökutækjum.

92. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum. Það er mál nr. 92 og 1. flm. er hv. þm. Mörður Árnason. Ég er reyndar þarna á meðal flutningsmanna, enda mjög fylgjandi málinu.

Við ræddum vörugjald af ökutækjum mjög ítarlega í gær, frumvarp hæstv. fjármálaráðherra sem gekk út á það sama nema það gekk ekki eins langt og þetta frumvarp gerir. Þar var mikil umræða um hvernig hægt væri að minnka koldíoxíðsmyndun í tengslum við umferð á vegum, m.a. með því að nýta vistvæna orkugjafa og lækka sérstaklega vörugjöld fyrir bifreiðar sem framleiða lítið koldíoxíð við hvern ekinn kílómetra o.s.frv.

Nú sitjum við uppi með bifreiðaflota sem eldist mjög hratt vegna þess að það er eiginlega ekkert flutt inn af bílum. Heimilin hafa ekki flutt inn bíla síðan nokkru fyrir hrun og má segja að bílaleigurnar haldi uppi innflutningi. Hann er ekki nema svipur hjá sjón frá því sem áður var. Það verður til þess að bílaflotinn nýtur ekki þeirrar framþróunar sem er í framleiðslu bifreiða þessa dagana eða þessi árin, sem skilar sér í því að bílarnir eru miklu umhverfisvænni, þeir valda ekki eins mikilli koldíoxíðsmengun, sem er reyndar dálítið rangnefni vegna þess að koldíoxíð er ekki mengunarefni. Það er allt að því hollt fyrir plöntur alla vega og skaðar fólk ekki nema það sé of mikið af koldíoxíði þannig að það ryðji súrefninu burtu, en vandinn er einmitt sá að við erum með eldgamlan bílaflota. Hann er orðinn vanstilltur, hann er orðinn mengandi, hann kostar mikið viðhald og annað slíkt og það er dálítið hættuleg þróun, þ.e. ef við ætlum að hafa einkabíl á Íslandi yfirleitt. Ég tel að menn ættu að skoða það sem ég nefndi í gær, að fara jafnvel hina leiðina, að lækka öll vörugjöld af öllum bílum um einhverja ákveðna prósentu á ári og gefa það út: Við ætlum að lækka vörugjöld um 20% á næsta ári, síðan um 10% á ári þangað til þau hverfa, en hækka hins vegar gjöldin á þau jarðefni, olíu, dísil og bensín sem unnin eru úr iðrum jarðar því að þar kemur aukningin fram.

Ef við hækkum verð á olíu og bensíni þannig að það sé hlutlaust fyrir ríkissjóð og reyndar fyrir neytendur líka — verð á bílum lækkar og menn borga meira fyrir notkunina — yrði bensínið enn dýrara miðað við metan og lífdísil, sem getur verið jurtaolía ýmiss konar eða jafnvel steikingarolía sem mætti endurnýta. Þá gerist það að þeir þættir verða hlutfallslega ódýrari. Ég lagði reyndar til að bifreiðagjaldið yrði líka aflagt af því að ég er hlynntur einfaldleika.

Ef mönnum er mjög umhugað um að auka þennan mun, lagði ég til niðurgreiðslu á metan og lífdísil þannig að munurinn yrði enn meiri og hvetti fólk enn frekar til að nota það eldsneyti. Það á að leyfa fólki sem á breytta metanbíla að njóta þess að fá endurgreitt vörugjald og annað slíkt, að fólk geti valið um hvort það keyrir á bensíni eða metani. Munurinn á verði orkugjafa er töluverður fyrir núna þannig að það er miklu ódýrara að keyra á metani en á bensíni. Ef við gerum þann mun enn meiri með því að flytja vörugjöldin yfir á bensín og dísil — þau gefa ríkissjóði svo sem engar tekjur í dag af því að ekkert er flutt inn af bílum — og lækka þann þröskuld sem vörugjöldin eru, má í rauninni segja að við séum viðbúin að auka hvatann til að nota metan enn frekar, líka með því sem lagt er til í frumvarpinu. Það kæmi mikið af nýjum bílum og sömuleiðis mundi breyttum bílum fjölga eins og hér er gert ráð fyrir. Kannski má segja að með því að fara þá leið sé þetta allt orðið meira og minna óþarft, líka það mikla flækjustig sem frumvarp ráðherrans gerir ráð fyrir með því að skipta bílum í flokka eftir mengunargildi o.s.frv.

Ég vildi gjarnan að hv. efnahags- og skattanefnd sem ég sit í skoði öll málin samhliða og leiti sjálf að lausn sem er góð fyrir ríkissjóð og góð fyrir mengun jarðar því að það stuðlar að því að minnka koldíoxíðslosun markvisst. Ef okkur tekst að eyða metani sem mengar miklu meira óbrunnið er eiginlega tvöfaldur eða þrefaldur ávinningur að nota metanið. Reyndar hef ég ekki fengið upplýsingar um það — ég hef spurt um hvað það kostar raunverulega að vinna metan vegna þess að það er meira félagsleg starfsemi. Ég vildi sjá nákvæmlega hvað það kostar að vinna t.d. metan uppi við öskuhaugana eða þar sem það er unnið núna.

Frumvarpið mun, eins og hv. þm. Mörður Árnason og fleiri bentu á, auka atvinnu á Íslandi vegna þess að það gefur hvata til að menn fari að breyta bílum. Ég tel það vera smáljós í myrkrinu sem umlykur íslenskar fjölskyldur og sérstaklega þær fjölskyldur þar sem fjölskyldumeðlimir hafa orðið atvinnulausir, sem ég tel vera eiginlega mesta forsendubrestinn sem íslensk heimili hafa lent í, þ.e. að fólk missti vinnuna.

Ég veit ekki hvort ég á að ræða öllu meira um þetta. Þetta er athyglisvert frumvarp og þess vegna léði ég strax máls á því að vera með á því. Ég held að ef við trúum á það að jörðin sé að hitna og ef við trúum því að sú hitnun stafi af því að koldíoxíðhlutfallið í andrúmsloftinu hafi aukist en ekki af einhverjum öðrum ástæðum, sem gæti verið aukin rakamyndun eða aukin orka sólar, tel ég að málið sé mjög gott til að minnka koldíoxíðsmengunina.