139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 55/2010 um breyt. á XX. viðauka við EES-samninginn.

236. mál
[18:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála því mati hv. þingmanns að núverandi utanríkisráðherra sé útlenskur í hugsun. Ég lít þvert á móti á mig sem gamalgróinn sveitamann, hugsunarháttur minn er þannig klappaður. Ég held að það skipti miklu máli fyrir okkur, sérstaklega ef við göngum í Evrópusambandið, að viðhalda þeim þjóðlega íslenska hugsunarhætti.

Eins og komið hefur fram í umræðum í dag er ég algjörlega sammála hv. þingmanni um það að við eigum að nota allar þær smugur sem til eru til að hafa áhrif og efla ítök okkar í krafti EES-samningsins á meðan hann er tækið sem við notum til að koma hagsmunum Íslands fram erlendis, eins og ég sagði fyrr í dag, áður en við erum gengin í Evrópusambandið — og ef svo fer að við gerum það ekki eigum við líka að gera það. Ég stóð að þannig tillögugerð þegar ég var í Evrópunefndinni. Sú tillaga sem hv. þingmaður nefndi, að vísu í umræðum um annað mál hér fyrr í dag, sem varðaði það að Alþingi Íslendinga hefði fulltrúa við Evrópuþingið — ég er algjörlega sammála því, hef mælt fyrir því, stutt það mál. Ég er sammála þeim sem það ræddu hér fyrst, sem var reyndar Framsóknarflokkurinn á meðan hann var á sínu besta Evrópubrokki.

Að öðru leyti tel ég að þetta mál, eins og svo mörg önnur, sýni að það sé miklu betra fyrir fólk eins og hv. þingmann, sem kann að vera á móti einhverjum tilteknum málum sem við verðum þó að innleiða meira og minna, að hafa rödd innan Evrópusambandsins.

Á sínum tíma var ég þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn og öll hans fóbía gegn Evrópusambandinu hefði stafað af því að það var í höndum sósíaldemókrata. Nú er allt annað uppi. Nú er Evrópa í höndum hægri manna, konservatífir flokkar ráða henni meira og minna. Hv. þingmaður mundi finna þar mörg glæsileg skoðanasystkini og mundi geta lagt sitt lóð á vogarskálar (Forseti hringir.) hins íhaldssama hugsunarháttar víðar en bara á meginlandinu.