139. löggjafarþing — 35. fundur,  25. nóv. 2010.

heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskóla.

86. mál
[19:24]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um heimspeki sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum. Ég styð heimspekikennslu í skólum en mér finnst engu að síður vera gert ráð fyrir fullmikilli kennslu. Ég styð hins vegar markmið frumvarpsins sem eru samkvæmt greinargerð að efla siðferðislega menntun, styrkja ábyrgðarkennd nemenda gagnvart samfélaginu, stuðla að gagnrýninni hugsun og leggja grundvöll að því að styrkja skilyrði siðferðislegrar rökræðu meðal framtíðarborgara landsins á sama tíma og lýðræðislegir innviðir samfélagsins eru treystir.

Mér finnst hins vegar að gert sé ráð fyrir of mörgum kennslustundum í þetta. Gert er ráð fyrir einum áfanga á hverjum tveimur árum á grunnskólastigi og að meðaltali einum áfanga á hverju skólaári á framhaldsskólastigi. Mér reiknast því til að þetta sé samtals níu ára nám í heimspeki. Mér finnst of vel í lagt. Ekki vegna þess að ég sé á móti heimspeki eða heimspekikennslu heldur finnst mér að farsælla sé að innleiða þessi markmið með öðrum hætti í skólastarfið. Ég er fullkomlega sammála því að við þurfum að efla siðferðislega menntun. Sérstaklega er mér hugleikið að við þurfum að efla gagnrýna hugsun. Heimspekikennsla er ekki eini farvegurinn fyrir kennslu í gagnrýninni hugsun. Það er það sem ég vil leggja áherslu á.

Ég held að það sé farsælla að innleiða gagnrýna hugsun sem heimspeki byggir á inn í aðrar námsgreinar, til að mynda móðurmálskennslu og samfélagsfræðslu. Ég held að það sé vænlegra að samþætta gagnrýna hugsun inn í þessar námsgreinar. Innleiða gagnrýnin vinnubrögð og sjálfsgagnrýni en mér finnst skorta gífurlega á hvorutveggja í íslensku skólakerfi.

Ég kláraði grunn- og framhaldsskóla. Ég hef oft hugsað til baka og ég minnist ekki að hafa heyrt hugtakið „gagnrýnin hugsun“ fyrr en á háskólastigi. Það þýðir ekki að ég hafi ekkert lært um gagnrýna hugsun á grunnskólastigi og framhaldsskólastigi. Það þýðir ekki að ég hafi aldrei fyrr en á þeim tímapunkti í lífi mínu beitt gagnrýninni hugsun eða verið kennd gagnrýnin hugsun með öðrum hætti en í gegnum heimspekinám. Ég held að það sé í raun og veru miklu meira sem þarf að laga í íslensku skólakerfi en að heimspekikennsla ein og sér geti kippt því í liðinn. Heimspekikennsla er ekki skyndilausn en við eigum að taka gildi heimspekilegrar og gagnrýninnar hugsunar og innleiða í skólastarfið í heild.

Hér á landi er afleit umræðuhefð. Hún byggir á því að reyna með rökum og helst pínulitlu ofbeldi að skjóta þann sem þú ræðir við í kaf. Í stað þess leggjum við náttúrlega litla áherslu á rökræður en við leggjum þó meiri áherslu á rökræður eða samræður en eitthvað sem mætti kalla gagnræður þar sem öll sjónarmið eru uppi á borðinu og öll eiga rétt á sér.

Mig langar að taka örlítið dæmi úr eigin lífi eða lífi drengjanna minna og skólagöngu þeirra um það sem mér finnst skorta á gagnrýnin vinnubrögð og sjálfsgagnrýni í íslenskum skólum. Það er svo að í grunnskólanum sem þeir hafa gengið í lengst af hefur verið lögð mikil áhersla á ritun. Hún á að vera sjálfsprottin. Það eru engar sérstakar leiðbeiningar, þetta á að vera frjálst flæði. Til þess hafa þeir fengið frá því í 1. bekk auða stílabók þar sem á efri helmingnum er pláss fyrir mynd og á neðri helmingnum eru línur þar sem þeir eiga að skrifa einhverja frásögn. Þeir eru sendir með þetta heim og eiga að vinna verkefnið heima undir handleiðslu foreldra sinna. Svo fá þeir stjörnu og athugasemdirnar eru kannski „gott“ eða „fín saga“ eða „mundu að byrja setningu á stórum staf“ eða „mundu að lita myndina“.

Þetta finnst mér ekki kalla á gagnrýnin vinnubrögð en ég áttaði mig kannski ekki á mismuninum fyrr en þar bauðst tækifæri til að vera um nokkurra mánaða skeið í bandarískum skóla þar sem vinnubrögðin við sams konar vinnu voru gerólík. Þá var yngri sonur minn í 4. bekk, 10–11 ára, og hann fékk það verkefni að skrifa frásögn úr eigin lífi. Það fyrsta sem hann átti að gera var að fara heim og hugsa. Hann átti að velta upp, finna þrjár frásagnir sem hann gæti hugsað sér að skrifa um úr eigin lífi og einungis skrifa minnispunkta. Svo fór hann í skólann og sagði frá þessu og í samráði við kennara valdi hann eina af þessum frásögnum til þess að skrifa niður.

Það næsta sem þau gerðu var að skrifa upp frásagnarliðina í frásögninni á lítil spjöld og raða þeim upp með ýmsum hætti og sjá hvernig frásögnin breyttist eftir því hvernig miðunum var raðað upp. Það næsta sem hann átti að gera var að fara heim og heimaverkefnið var að skrifa þrjá mismunandi innganga á frásögnina. Hann fór í skólann með það og ræddi við kennara og samnemendur hvaða inngangur að frásögninni væri bestur. Það næsta sem hann átti að gera var að skrifa frásögnina niður eftir frásagnarmiðunum. Í annað skipti átti hann að skrifa þrjá mismunandi enda og velja í skólanum þann besta. Þá var hann kominn með sögu.

Hér hefði íslenskum kennurum fundist verkefninu lokið en það var alls ekki svo, heldur hófst þá rýnivinna í textann. Skoðað var hvort eitthvað mætti segja öðruvísi, hvort betra væri að láta eitthvað gerast í staðinn fyrir að segja að það hefði gerst. Láta persónur segja setningar í staðinn fyrir að segja frá að þær hefðu sagt setningar. Hann fékk tékklista þar sem farið var í gegnum ýmis atriði og lagfærði frásögnina. Hann skrifaði hana upp aftur, fór með hana í skólann og þar skiptust nemendur á að lesa yfir hver hjá öðrum og leiðrétta stafsetningu. Síðan skrifaði hann hana upp einu sinni að lokum. Hann hélt mikið upp á þetta verkefni og gerði þetta reyndar oftar en einu sinni. Þarna var enska, sem var móðurmálið í þessum skóla, og ekki aðeins heimspekikennsla heldur var þarna vissulega verið að kenna gagnrýna hugsun, gagnrýnin vinnubrögð og sjálfsgagnrýni sem ég held að íslensk börn komist í gegnum alla sína skólagöngu nánast án þess að iðka mikið.

Ég styð það fyllilega að tekin verði upp heimspekikennsla í skólum. Mér finnst það ekki eiga að vera eina leiðin til að kenna börnum og nemendum gagnrýna hugsun. Ég held að fyrsta verkefnið sé að skoða hvernig kennaramenntun er háttað. Hvernig það getur verið að samfélagið sé í þeim sporum sem við erum í núna að börn læra ekki gagnrýna hugsun, það er í raun og veru staðreynd.