139. löggjafarþing — 39. fundur,  30. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um mál sem nú er til meðhöndlunar innan efnahags- og skattanefndar Alþingis. Hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir breytingum á virðisaukaskattslögum þann 16. nóvember sl. Þar er m.a. kveðið á um að hætt skuli að endurgreiða virðisaukaskatt vegna sölu á heitu vatni og rafmagni. Þannig er að lögin eins og þau eru í gildi í dag gera ráð fyrir því að þessi virðisaukaskattur sé endurgreiddur með sérstökum hætti til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á hækkun á húshitunarkostnaði í landinu. Við vitum að húshitunarkostnaðurinn er víða mjög sligandi. Það hefur t.d. komið fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram að húshitunarkostnaður t.d. í dreifbýli hefur hækkað á síðustu 10 árum að raungildi um 60–70%. Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að þessum endurgreiðslum verði hætt og það mun hafa í för með sér sérstaka aukalega hækkun upp á 4,5% eða þar um bil á þessum köldu svæðum.

Í umræðu um þessi mál sagði hæstv. fjármálaráðherra að ætlunin sé sú að þessi breyting verði kostnaðarlega hlutlaus, þ.e. ætlunin væri sú að með einhverjum hætti yrði bætt í þá fjármuni sem nú eru ætlaðir til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði í landinu. Ef við skoðum hins vegar fjárlagafrumvarpið getur þar að líta allt aðra stefnu. Þar er gert ráð fyrir því að skera mjög hressilega niður húshitunarkostnaðinn, mun meira en t.d. er gert ráð fyrir almennt í hagræðingarkröfunni sem iðnaðarráðuneytið er með hjá sér. Með öðrum orðum, stefnumótunin er sú að reyna að draga úr framlögum til lækkunar húshitunarkostnaðar og auka þar með húshitunarkostnaðinn í landinu. Þetta kemur síðan til viðbótar.

Það er mjög mikilvægt að þessu verði breytt í meðförum þingsins. Efnahags- og skattanefnd hefur málið á sinni könnu og auðvitað fjárlaganefnd og það er gríðarlega mikilvægt að frá þessu máli verði ekki farið öðruvísi en að það sé a.m.k. tryggt að peningarnir (Forseti hringir.) skili sér eða horfið verði frá þeim breytingum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt af stað með.